Innlent

Lokun handritasýningar eins og ef breitt væri yfir Akropolis

Heimir Már Pétursson skrifar
Elín Hirst þingmaður Sjálfstæðisflokksins vakti athygli á því á Alþingi í dag að sýningu á íslenskum handritum í Þjóðmenningarhúsinu hafi verið lokað, vegna þess að ekki væru tryggðir fjármunir til sólahringsgæslu í húsinu.  Elín minnti á að nú væri haldið upp á 350 ára afmæli Árna Magnússonar sem safnað hefði stórum hluta handritanna.

„En á sama tíma er hvergi hægt að skoða handritin, þessa mestu dýrgripi íslensku þjóðarinnar og þótt víðar væri leitað,“ sagði Elín í umræðum um störf þingsins í dag.

Sýningin hefði verið opin allt frá árinu 2002 en verið lokað hinn 1. september. Það hafi verið skilyrði fyrir sýningu handritanna að gæsla væri í Þjóðmenningarhúsinu allan sólarhringinn og sérstök fjárveiting fengist vegna þessa.

„En síðan er Árnastofnun tilkynnt að ekki sé gert ráð fyrir öryggisgæslu frá og með 1. september í Þjóðmenningarhúsinu, einmitt núna í haust þegar við fögnum afmæli Árna Magnússonar,“ sagði Elín. Ekki verði séð að til séu sýningargripir sem brýnna sé að Íslendingar og ferðamenn hafi aðgang að. Íslendingar hefðu ekki efni á því að loka handritin inni.

„Það væri svipað og ef Grikkir ákveddu að breiða yfir Akropolis og Egyptar lokuðu leiðinni að pyramidunum miklu,“ sagði Elín Hirst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×