Viðskipti innlent

Von um bætt lífskjör með auknum hagvexti

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hagvöxtur mun aukast um 0,3 prósentustig og verður 1,7 prósent á þessu ári samkvæmt spá greiningar Íslandsbanka. Þá telur aðalhagfræðingur bankans að framkvæmdir á Helguvík komist á skrið á árinu 2015 og hagvöxtur verði 2,7 prósent þá.

Landsframleiðslan og lífskjörin haldast í hendur því vöxtur í landsframleiðslunni er nauðsynlegur til að fjölga störfum. Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Íslandsbanka kynnti spána á Fjármálaþingi bankans á Nordica hóteli.

Hagvaxtarspáin er sjálfstæð enda vinnur greining bankans óháð afstöðu stjórnenda Íslandsbanka.

Eins komma sjö prósenta hagvöxtur. Þetta er nú ekki beysinn vöxtur? „Þetta er ekki mikill hagvöxtur í samanburði við það sem hagkerfið hefur verið að vaxa um á undanförnum áratugum. Þar sem vöxturinn var tvö og hálft prósent þegar litið er til síðustu þriggja áratuga, þetta er undir því. Þetta er engu að síður meiri hagvöxtur en við sáum á síðasta ári og meiri hagvöxtur en við sjáum í helstu viðskiptalöndum okkar að undanförnu,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Íslandsbanka í viðtali við Stöð 2.

Ingólfur segir að hagvöxturinn verði drifinn áfram af útflutningi og einkaneyslu.

Bjartsýnir á Helguvík

Greining spáir því hagvöxturinn verði 2,6 prósent á næsta ári og 2,7 prósent 2015. Athygli vekur að Ingólfur og samstarfsmenn hans gera ráð fyrir að Helguvíkurverkefnið fari í gang 2015 en Norðurál og HS Orka hafa hingað til ekki náð neinu samkomulagi um raforkuverð sem hefur stöðvað framkvæmdir. Þá liggur ekki fyrir hvaðan orkan á að koma enda er gert ráð fyrir að álverið þurfi 625 megavött.

„Hluti af því sem við byggjum spána okkar á er að álverð komi til með að hækka. Sú fjárfesting (Helguvík) hvílir svolítið á því að álverð hækki og arðsemin verði meiri. Þetta er að skila 0,6 prósentustigum af þessum hagvexti næstu tvö ár þannig að ef ekki verður af þessu þá verður hægari hagvöxtur, en það er ekki eins og það verði enginn hagvöxtur,“ segir Ingólfur.

Það hefur vakið upp spurningar hvers vegna greiningaraðilar eru ennþá með Helguvíkurverkefnið í sínum spám. Bæði Seðlabankinn og fjármálafyrirtæki hafa gengið út frá því að það fari í gang. Ástæðan er í flestum tilvikum sú að það er undirliggjandi samningur vegna verkefnisins þótt ekki hafi náðst samkomulag um raforkuverð. Þá hefur Norðurál eytt mörgum milljörðum króna í undirbúning. Stálgrindurnar í Helguvík eru hins vegar þess eðlis að lítið mál er að skrúfa þær niður aftir og koma þeim í verð, ef svo ber undir. Þannig er ekki um að ræða óafturkræfan kostnað, eða tjón, fyrir Norðurál, þótt tjónið verði alltaf eitthvað ef verkefnið nær ekki fram að ganga. 

Dugleg að afskrifa

Á Fjármálaþingi komu fram áhugaverðar upplýsingar um afskriftir á skuldum viðskiptavina Íslandsbanka. Fram kom í máli Birnu Einarsdóttur, bankastjóra, að bankinn hefði afskrifað skuldir viðskiptavina, bæði fyrirtækja og einstaklinga upp á samtals 500 milljarða króna frá 2009. Það kom hins vegar ekki fram sundurliðun á fjárhæðinni, þ.e hversu stór hluti væri hjá fyrirtækjum, en þar liggur nú stærstur hluti fjárhæðarinnar. Þá uppýsti Birna að aukin eftirspurn væri eftir útlánum og að eigið fé bankans hefði rúmlega tvöfaldast frá 2009, en aukningin nemur 125 prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×