Innlent

Bjartsýni um samninga í makríldeilunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Talið er að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, leggi fram tillögur um nýtt tilboð til Íslendinga og Færeyjinga í makríldeilunni.
Talið er að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, leggi fram tillögur um nýtt tilboð til Íslendinga og Færeyjinga í makríldeilunni.
Bjartsýni ríkir um að samkomulag kunni á nást í makríldeilunni á samningafundi í næstu viku og að Evrópusambandið sé tilbúið að veita Íslendingum og Færeyjingum stærri hlutdeild í veiðunum en vilji hefur verið til hingað til.

Sjávarútvegsráðherrar evrópusambandsríkjanna komu saman til fundar í morgun þar sem talið er að Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins leggi fram tillögur um nýtt tilboð til Íslendinga og Færeyjinga í makríldeilunni. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er þar verið að ræða um allt að tæp tólf prósent af ráðlögðum heildarveiðum til Íslendinga og sama hlutfall til Færeyinga.

Þetta er töluverð aukning frá því sem sambandið hefur hingað til viljað bjóða, sem verið hefur á bilinu sex til sjö prósent. Íslendingar hafa hins vegar farið fram á allt að 16 til 17 prósent, sem er svipað hlutfall og Íslendingar hafa veitt úr stofninum á undanförnum árum.

Simon Coveney sjávarútvegsráðherra Írlands segir aftur á móti að Írar muni leggjast gegn svo mikilli aukningu til Íslendinga og Færeyinga og njóti stuðnings að minnsta kosti sex annarra aðildarríkja í þeirri afstöðu.

Það er margt sem skýrt getur aukinn samningsvilja, til að mynda mjög jákvæður samningafundur í deilunni í Reykjavík í haust og þreifingar í framhaldi af honum og svo hitt að fiskifræðingar telja makrílstofninn nú mun stærri en áður. Þannig leggja fiskifræðingar til að heildarkvótinn verði 890 þúsund tonn á næsta ári en hann var 542 Þúsund tonn á þessu ári.

Menn bíða því spenntir eftir því að fundi ESB-ráðherranna ljúki í dag og hvort Damanaki gefi frá sér einhverjar yfirlýsingar að honum loknum um það veganesti sem hún tekur með sér inn á samningafund í Lundúnum á miðvikudag í næstu viku.

En Evrópusambandið er ekki eini samningsaðili Íslendinga í þessari deilu. Norðmenn sitja líka við samningaborðið og reynslan sýnir að þeir geta verið mun harðari í horn að taka en Evrópusambandið og ekki víst að þeir verði reiðubúnir að nálgast Íslendinga og Færeyinga með sama hætti og Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×