Innlent

Legugjöld Landspítala: Ekki svigrúm til afslátta og undanþága

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ellilífeyrisþegar og öryrkjar eru 80% þeirra sem dvelja á Landspítalanum. Legugjöld munu því leggjast þyngst á þessa hópa.
Ellilífeyrisþegar og öryrkjar eru 80% þeirra sem dvelja á Landspítalanum. Legugjöld munu því leggjast þyngst á þessa hópa.
Um 80% þeirra sem leggjast inn á Landspítalann og dvelja til lengri tíma eru öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Að öllum líkindum mun því 1200 króna legugjald leggjast þyngst á þessa þjóðfélagshópa.

Algengt er að eldra fólk veikist og ílengist á spítalanum. Sem dæmi sem fengið er frá Landspítala má nefna eldri konu sem dettur og brotnar svo illa að hún getur ekki búið lengur ein og þarf pláss á hjúkrunarheimili. Hún er í þrjár vikur á spítala í meðhöndlun og endurhæfingu og bíður svo fimmtíu daga á Vífilstöðum eftir hjúkrunarplássi, en þar eiga legugjöld einnig við.

Samtals þarf konan því að greiða 85.200 krónur í reikning við útskrift og jafnframt borga rekstrargjöld heimilis síns.

Í fjárlögunum er ekki farið út í hverjir eigi að borga legugjaldið og hvort einhverjir fái að njóta afsláttakjara.

Legugjaldið hefur því vakið upp fjölmargar spurningar, til dæmis hvort langlegusjúklingar eins og eldri konan í dæminu að ofan borgi fullt gjald alla dagana. Einnig hvort sjúklingar á líknardeild, börn og nauðungarvistaðir sjúklingar á geðdeild borgi gjöld fyrir hverja nótt á spítalanum.

Við fyrirspurn Vísis til Velferðarráðuneytis um niðurgreiðslu- og afsláttafyrirkomulag fékkst svarið að útfærslu á innheimtu legugjaldsins sé ekki lokið og því ekki unnt að svara að svo stöddu hvort eða hvernig verði staðið að því að veita afslætti, setja hámörk eða veita undanþágur frá gjaldinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala verður þó lítið svigrúm fyrir afslátt eða undanþágur. Til þess að tekjur Landspítala fyrir legunætur sjúklinga nái 200 milljónum króna á ári, eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum, þarf að vera greitt fyrir 166 þúsund nætur á fullu gjaldi. Á síðasta ári voru legunætur samtals 213 þúsund á Landspítalanum og því er svigrúmið til að veita afslátt eða undanþágur rúmlega 45 þúsund legunætur.

Í svari frá Velferðarráðuneyti er sagt að gert sé ráð fyrir þessu svigrúmi til aðlögunar þegar kemur að útfærslu á innheimtu gjaldsins. Einnig að nú sé að störfum nefnd sem mun gera tillögur um samræmt niðurgreiðslukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu og haft verði samráð við nefndina við útfærslu á fyrirhuguðu gjaldi fyrir legunætur á sjúkrahúsum.

Samkvæmt Landspítalanum sýnir þó reynslan að erfitt er að innheimta gjöld sem sjúklingar þurfa að borga fyrir þjónustu á spítalanum. Því má gera ráð fyrir að hluti gjaldanna verði aldrei innheimtur og þetta svigrúm til afsláttar, sem Velferðarráðuneyti vísar til, hverfi.

Að þessu gefnu þarf Landspítalinn að öllum líkindum að rukka hvern einasta sjúkling um hverja einustu nótt á fullu verði til að ná tvö hundruð milljón króna markmiði fjárlaganna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×