Innlent

Varar við „ókeypis“ sýnishornum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Tollhúsið við Reykjavíkurhöfn.
Tollhúsið við Reykjavíkurhöfn. Mynd/Visir
Tollstjóri varar við varasömum viðskiptaháttum tiltekina erlendra vefverslana sem bjóða fólki upp á ókeypis sýnishorn af vöru sinni gegn því að það gefi upp greiðslukortanúmer sín til að greiða sendingarkostnað.

Í tilkynningu frá tollstjóra segir að umrædd fyrirtæki bjóði einkum upp á varning sem flokkast undir fæðubótarefni og andlistkrem. Þessi fyrirtæki nýta sér t.d. Facebook til að auglýsa tilboð sín og eru jafnvel send í skilaboðum til einstaklinga.

„Um leið og korthafi veitir þessar upplýsingar til að fá sýnishornið er hann ómeðvitað búinn að samþykkja að fá umrædda vöru framvegis í áskrift. Síðan fara að berast fleiri sendingar og er greiðsla fyrir þær jafnóðum tekin af kortinu. Að auki þarf að greiða aðflutningsgjöld af varningnum,“ segir í tilkynningu frá Tollstjóra.

Fjölmörg dæmi er um það hér á landi að fólk hafi þurft að loka kortum sínum af þessum sökum. Á bilinu þrjár til fimm sendingar af þessu tagi eru endursendar frá Íslandi á hverjum degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×