Innlent

Gleypti amfetamínið þegar lögreglan stöðvaði bifreiðina

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Bifreiðin var stöðvuð á Reykjanesbraut.
Bifreiðin var stöðvuð á Reykjanesbraut.
Ung kona var í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og svipt ökurétti.

Konan, sem er 28 ára gömul, viðurkenndi að hafa ekið án réttinda en neitaði því hins vegar að hafa verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn. Hélt hún því fram að hún hafi ekið frá móður sinni í Keflavík þegar hún varð vör við að lögregla hugðist stöðva bifreiðina. Ók hún þá út í kant, stöðvaði bifreiðina og í framhaldinu gleypti hún amfetamín sem hún hafði í fórum sínum. Efnið sagðist hún hafa gleypt á þessum tímapunkti til að lögreglan finndi það ekki í fórum hennar.

Lögreglumenn sem stöðvuðu för konunnar umrætt sinn báru fyrir dómi að um 10 sekúndur hafi liðið frá því þeir stöðvuðu lögreglubifreið sína og þar til þeir komust að bíl konunnar. Þeir hafi ekki tekið eftir því að hún hafi sett eitthvað upp í sig á þeim tíma.

Dómurinn taldi skýringar konunnar á ástandi sínu einkar ósennilegar og dæmdi konuna fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, ásamt því að hafa ekið bifreiðinni svipt ökurétti. Hlaut hún óskilorðsbundinn fangelsisdóm í 30 daga og sviptingu ökuréttinda ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×