Innlent

Tröllalömb úr Grímsey

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sauðfé af Norður- og Austurlandi kemur mjög vænt til slátrunar í haust og er fallþunginn mun hærri en í fyrra, öfugt við það sem gerist sunnanlands. Hvergi virðast lömbin þó þrífast betur en í Grímsey.

Þetta kom fram í viðtali í fréttum Stöðvar 2 við Sigmund Hreiðarsson, stöðvarstjóra Norðlenska á Húsavík, sem framleiðir kjötvörur undir merkjum Goða. Í sláturhúsinu á Húsavík eru nú um 150 manns að störfum, þar af um helmingurinn Íslendingar.

Starfsfólkið er af 19 þjóðernum en í sláturtíðinni var því fjölgað um 90-100 manns.

Um 150 manns starfa nú í sláturtíðinni hjá Norðlenska á Húsavík.Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Bændurnir streyma inn í röðum með lömbin til slátrunar og bíða jafnan spenntir að sjá tölur um fallþunga, sem Sigmundur segir að sé um 300 grömmum meiri í ár en í fyrra. Hann hafði einnig frétt af því að fallþunginn hjá Fjallalambi á Kópaskeri væri enn meiri, þar væru lömbin 400 grömmum þyngri en í fyrra, og telur Sigmundur að gott sumar norðan- og austanlands hljóti að eiga hér hlut að máli.

Lömb á leið til slátrunar á Húsavík. Þau eru 300 grömmum þyngri að meðaltali en í fyrra.
Einn staður virðist þó standa upp úr en það er Grímsey, en þaðan komu 40 lömb til slátrunar á Húsavík, sem reyndust vænni en  önnur. Meðalvigtin 22,49 kíló, sem er með því mesta sem sláturhússtjórinn sér.

„Við vissum að mannfólkið hefur það mjög gott í Grímsey en féð virðst líka koma mjög sterkt þaðan. Bara góð beit, - enginn vafi, þar er gott að vera,” segir Sigmundur Hreiðarsson í viðtali á Stöð 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×