Viðskipti innlent

Eykon í hópi 50 umsækjenda um sérleyfi í lögsögu Noregs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Olíuvinnslupallur í lögsögu Noregs. Nú ætla Íslendingar að freista gæfunnar þar.
Olíuvinnslupallur í lögsögu Noregs. Nú ætla Íslendingar að freista gæfunnar þar.
Eykon Energy er í hópi fimmtíu olíufélaga sem sóttu um sérleyfi í nýjasta útboði á olíusvæðum Norðmanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu olíu- og orkumálaráðuneytis Noregs en umsóknarfrestur rann út þann 11. september. Ráðamenn Eykons höfðu áður skýrt frá því að þeir áformuðu að sækja um þrjú svæði í útboðinu.

Útboðið náði til svæða í Norðursjó, Noregshafi og Barentshafi, alls um 103 þúsund ferkílómetra, sem skipt var upp í 377 blokkir. Stefnt er að því að sérleyfunum verði úthlutað í ársbyrjun 2014.

Eykon er í félagsskap olíurisa eins og ExxonMobil, Statoil, Shell, Chevron, ConocoPhillips og Total en einnig eru mörg smærri félög í hópi umsækjenda, þeirra á meðal færeysku félögin Atlantic Petroleum og Faroe Petroleum. Ola Borten Moe, olíumálaráðherra Noregs, lýsti á föstudag yfir mikilli ánægju með þennan fjölda umsókna, sem hann sagði endurspegla mikinn áhuga.

Eykon sótti um í nafni félags sem skráð er í Noregi, Eykon Energy AS, en starfsemi þess stýrir Norðmaðurinn Terje Hagevang. Vegna umsóknarinnar hefur félagið komið á fót tólf manna starfsstöð í Osló. Helstu eigendur Eykons eru Heiðar Már Guðjónsson, stjórnarformaður félagsins, Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri, Verkfræðistofan Mannvit og Terje Hagevang.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar tengjast olíuleit í lögsögu annars ríkis. Árið 2006 var Geysir Petroleum aðili að sérleyfum, bæði í lögsögu Danmerkur og Bretlands. Geysir rann síðan inn í Sagex Petroleum, sem síðan rann inn í Valiant Petroleum, sem nú er hluti Ithaca Energy, en það félag er handhafi sérleyfis á Drekasvæðinu íslenska.


Tengdar fréttir

Terje Hagevang til liðs við olíuleit Íslendinga

Helsti sérfræðingur Norðmanna um auðlindir Jan Mayen-svæðisins, jarðfræðingurinn og olíuforstjórinn Terje Hagevang, hefur ráðið sig til starfa fyrir íslenska félagið Eykon Energy.

Eykon sækir um leitarleyfi í Noregi

Íslenskt fyrirtæki undirbýr olíuleit í Noregi. Olíufélagið Eykon hefur sett upp tólf manna starfsstöð í Osló.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×