Viðskipti innlent

Útlit fyrir að svartsýnustu hagvaxtarspár rætist

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Útlit er fyrir að svartsýnustu spár um lítinn hagvöxt hér á landi rætist og hagvöxturinn verði rétt rúmlega eitt prósent.  Lítill hagvöxtur skýrist meðal annars af samdrætti í útflutningi.

Hagvöxturinn, þ.e vöxtur vergri í landsframleiðslu, er nauðsynlegur til að skapa hér bætt lífskjör.

Eins og sést á þessu grafi (sjá myndskeið) varð algjört hrun í landsframleiðslu 2009, árið eftir hrun bankakerfisins, en hún dróst saman um 6,5 prósent. Ári síðar var hagvöxturinn enn neikvæður um 4,1 prósent, en 2011 var svo ár viðsnúnings þar sem hagvöxturinn nam 2,9 prósentum. Síðasta ár var undir væntingum en þá var 1,6 prósenta hagvöxtur.

Horfurnar ekki bjartar

Horfurnar eru ekki bjartar fyrir þetta ár. Eina svartsýnasta hagvaxtarspáin var sett fram af greiningu Íslandsbanka en hún hljóðaði upp á 1,2 prósenta hagvöxt á þessu ári. Nú er útlit fyrir að hún rætist meðal annars vegna samdráttar í útflutningi.

Á mannamáli: Við framleiðum ekki nógu mikið og seljum ekki nægilega mikið af afurðum út. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að ástæður fyrir samdrætti í útflutningi séu einkum tvíþættar. „Annars vegar er það álútflutningurinn sem hefur verið að dragast saman, en á fyrri helmingi ársins sáum við afar slakar tölur, aðeins betri tölur reyndar fyrir júlí. Þar er samdráttur og að einhverju leyti eru það viðbrögð við stöðu heimsmarkaðsverðs á áli. Og hins vegar er það almennur iðnaðarvöruútflutningur sem einnig hefur verið að dragast saman,“ segir Ingólfur.

Væntingar almennings hafa hrunið á tveimur mánuðum

Hefur ríkisstjórninni mistekist að skapa væntingar til að ýta undir hagvöxtinn? „Það er spurning. Hagvöxturinn á þessu ári stefnir allavega í að verða mjög lítill. Bæði sögulega séð og miðað við það sem við þyrftum til að ná hagkerfinu upp úr þeirri lægð sem það er í.“

Væntingar fólks þarf að setja í samhengi við neyslu og fjárfestingar. Lítill hagvöxtur núna skýrist einnig af lítilli einkaneyslu, en það er staðreynd að væntingar almennings hafa hrunið á síðustu tveimur mánuðum. Væntingarvísitala Gallup stóð í 101 stigi í maí 2013, rétt eftir kosningar, en var komin niður í 78,5 stig í júlí sem er lægra en hún var í febrúar þegar síðasta ríkisstjórn var enn við völd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×