Innlent

Kennarasambandið hefur áhyggjur af sparnaði í menntamálum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Þórður Hjaltested er formaður Kennarasambands Íslands.
Þórður Hjaltested er formaður Kennarasambands Íslands.
Kennarasamband Íslands mótmælir fullyrðingum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þar sem fullyrt er að hægt sé að spara tugi milljarða króna í grunn- og framhaldsskólum landsins án þess að það komi niður á gæðum námsins.

Kennarasambandið og fulltrúar þess mótmæla þessum fullyrðingum og segja þær forsendurnar sem AGS gefur sér í besta falli hæpnar og í versta falli galnar.

Í tilkynningu frá Kennarasambandinu kemur fram að sjóðurinn taki upplýsingar frá OECD um kostnað á hvern nemenda í fjölmörgum vestrænum ríkjum sem og frammistöðu nemenda á PISA-prófum. Síðan gefur sjóðurinn sér að aðstæður séu nánast eins allsstaðar.Ef nemendur í einu landi geti náð ákveðnum árangri á PISA-prófi fyrir ákveðna upphæð á hvern nemenda þá hljóti nemendur í öðrum löndum að geta náð sama árangri fyrir sömu upphæð.

Í tilkynningunni segir enn fremur að þau lönd þar sem 15 ára nemendur ná svipuðum árangri og þeir íslensku á PISA-prófum séu til dæmis Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Frakkland, Tékkland og Pólland. Í þessum löndum séu útgjöld á hvern nemanda hæst í Noregi en lægst í Póllandi. Þetta þýði að skilvirknin sé mest í Póllandi en minnst í Noregi. Ísland sé nálægt miðjum hópnum hvað þetta varðar.

Lágur kostnaður Pólverja á hvern nemanda náist aðallega fram af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna afar lágra launa og hins vegar vegna þess að kennslutími nemenda í Póllandi er óvenju stuttur miðað við önnur lönd. Kennarasambandið spyr hvort raunhæft sé að ætla að Ísland, nú eða Noregur, geti náð sömu skilvirkni og Pólland og hvort það sé æskilegt.

Niðurstaðan Kennarasambandsins er að AGS teiknar upp mjög einfaldaða mynd af flóknum veruleika í skýrslu sinni og komi í framhaldi með stóryrtar yfirlýsingar. Í kjölfarið hafi sprottið upp umræður um styttingu náms hér á landi, sérstaklega á framhaldsskólastiginu.

Þar hefur algerlega gleymst að í flestum framhaldsskólum hér á landi hefur nemendum lengi staðið það til boða að klára nám sitt á þremur árum. Það sé algerlega í samræmi við stefnu Kennarasambandsins og eitthvað sem barist var fyrir árum saman, og náðist inn í núverandi lög.

Hafa áhyggjur af ummælum ráðherra

Það veldur Kennarasambandinu áhyggjum að umræðan nú eins og oft áður snýst aðeins um einn hlut, sparnað. Í tilkynningunni kemur svo fram að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra láta hafa eftir sér í Fréttablaðinu í dag,hugmyndir um styttingu náms; „Í því er fólginn mikill þjóðhagslegur sparnaður og slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að auka ævitekjur.“ Hann bæti síðan við að ráðuneytinu beri skylda til að nýta alla möguleika sem ríkið hefur til þess að ná fram hagkvæmni í kerfinu.



Í tilkynningunni kemur svo fram að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hafi sagt eftirfarandi í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun;"Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að ná endum saman til þess að geta gert betur í þessum málaflokkum sem við höfum verið að ræða, menntamálin, heilbrigðismálin, tryggingamálin og við getum haldið áfram í samgöngumálin og svo framvegis."

Fullyrðingin sé síðan einföld að það hægt er að spara án þess að það bitni á gæðum í kerfinu.Kennarasambandið segir aftur á móti að sagan sýni aftur á móti að slíkt eigi sér sjaldnast stoð í raunveruleikanum. Kennarasambandið telur að hvorki sé í þessari umræðu fjallað um hag eða vilja nemenda, né sjónarmið sérfræðinganna sem í skólunum starfa. Ekki sé farið í málið út frá faglegum forsendum heldur eingöngu krónum og aurum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×