Innlent

Heilsugæslan fái aukið hlutverk

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Geðraskanir eru langstærsta orsök örorku, eða 40 prósent, hjá þeim tæplega 17 þúsund örorkulífeyrisþegum hér á landi. Hlutfallið er mun hærra hjá þeim eru 30 ára og yngri, eða tæplega 70 prósent.

Skiptar skoðanir eru um úrbætur á þessum vanda. Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, ítrekar að þörf sé á meira fjármagni til að veita viðeigandi meðferð og endurhæfingu. Sigursteinn Másson er á öndverðum meiði. Hann fullyrðir út frá persónulegri reynslu sinni af geðheilbrigðiskerfinu að peninga vanti ekki heldur nýja, samfélagslega nálgun.

Páll og Sigursteinn er þó sammála um að brýn nauðsyn sé að taka geðheilbrigðiskerfið til skoðunar. Því er heilbrigðisráðherra sammála.

„Ég held að við þurfum nú að staldra við og hugsa um á hvað leið við erum," segir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. „Þetta vekur mann líka til umhugsunar um þær ástæður sem liggja að baki. Þetta er ekki endilega það að maður fæðist með þessar raskanir heldur eru það líka ytri áhrifaþættir sem vikta þarna inn í."

Í þessum efnum bendir Kristján Þór á hlutverk heilsugæslunnar. Að hans mati ætti hún að vera sá grunnur sem vísar fólki með geðraskanir veginn.

„Þegar við erum komin með svona marga einstaklinga í þennan hóp þá hlýtur það að kalla á mikla og allsherjar yfirlegu. Þetta kallar á þörfina að breyta bótakerfinu yfir í að það meti getu fólks í stað vanheilsu," segir Kristján Þór. „Og að stofnanir eins og Rauði Krossinn, Geðhjálp, Geysir og Hugarafl, fái aukið hlutverk. Svo hægt sé að færa þjónustuna nær manneskjunni."

Þannig væri betra ef úrræðin yrðu færð til einstaklingsins, með það fyrir augum að þeir geti í raun uppfyllt sömu grunnþarfir á aðrir í samfélaginu. Þá gerir Kristján Þór ráð fyrir því ráðuneytið muni taka málið til skoðunar á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×