Lífið

Eurovision-pilsið innrammað og hengt upp á vegg

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Einar Ágúst klæðist hér pilsinu í eitt af síðustu skiptunum áður en það verður rammað inn og hengt upp vegg á 800Bar á Selfossi.
Einar Ágúst klæðist hér pilsinu í eitt af síðustu skiptunum áður en það verður rammað inn og hengt upp vegg á 800Bar á Selfossi. Fréttablaðið/Villi

Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst hefur nú ákveðið að láta af hendi pilsið forláta sem hann klæddist þegar hann keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision árið 2000. "Jújú, það er satt. Eurovision-pilsið verður afhent nýjum 800Bar á laugardaginn. Þetta verður bara lán samt," segir Einar Ágúst en nýr 800Bar opnaði á Selfossi á dögunum, eftir að sá gamli varð bruna að bráð í fyrra.

Pilsið góða er eflaust mörgum afar minnugt en það vakti mikla athygli á sínum tíma. Einar Ágúst segir það ekki hafa verið mikið notað frá því á sviðinu í Svíþjóð fyrir 13 árum síðan. "Það hefur svotil hangið inni í skáp síðan en verið tekið fram einstaka sinnum, til dæmis fyrir Euroveislu Palla á Nasa og sérstök tilefni þar sem greitt hefur verið gott verð fyrir að koma fram í því," segir hann og hlær.

"Þegar öndvegispilturinn Eiður kom að máli við mig og bað mig um að lána pilsið á nýja staðinn fannst mér það því tilvalið. Ég treysti honum til að fara vel með gripinn og mér þykir gott að láta það þangað sem svo mikið af góðum hlutum í mínu lífi hafa komið frá," bætir hann við og nefnir sem dæmi vini sína úr hljómsveitinni Skítamóral og annað gott fólk sem hann hefur haft gæfu af að kynnast, þar á meðal áðurnefndan Eið.

Einar Ágúst mætir með pilsið með sér á 800Bar næstkomandi laugardagskvöld og afhendir það þá. Í framhaldinu verður það innrammað og sett upp á vegg, svo allir geta farið þangað og séð það með eigin augum. "Ætli ég mæti ekki með kassagítarinn með mér og taki nokkur vel valin lög í leiðinni," segir Einar Ágúst sem reiknar með að stíga á svið upp úr miðnætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.