Skoðun

Þetta er ekki pistill sem mun breyta lífi þínu

Óttar M. Norðfjörð skrifar

Þetta er ekki pistill sem mun breyta lífi þínu. Það eru heldur engin svör í honum og ég veð úr einu í annað. Ég er ekki að segja neitt nýtt eða frumlegt en samt sit ég hér og held áfram að skrifa. Ég held áfram að skrifa vegna þess að það er svo margt í kringum mig sem ég skil ekki. Þannig hefur það verið síðan ég var lítill og þá skildi ég það heldur ekki.

Ég man eftir ljósmyndum, tónlistarmyndböndum, tónlistarhátíðum og lögum sem fjölluðu um þessa hluti. Það var talað um eyðingu regnskóganna. Það var talað um börn sem deyja úr vannæringu í „þriðja“ heiminum. Ég man eftir pappírsbaukum í bönkum með litlum svörtum krökkum framan á með útstæða maga. Ég setti stundum tíkalla í baukana þegar ég lagði inn nokkra þúsund kalla á gömlu bankabókina mína í Búnaðarbankanum. Í barnslegri einlægni minni hélt ég að það myndi breyta öllu.

Ég er 33 ára gamall. Ég hef heyrt af eyðingu regnskóganna allt mitt líf og hélt alltaf að það væri einungis tímaspursmál hvenær hún myndi hætta og þróunin snerist við. En hún hefur ekki gert það. Ég heyrði nýlega að það væri búið að eyða 90% af regnskógunum í allri Vestur-Afríku. Ég veit ekki hvort það sé satt eða hvort mér hafi misheyrt en ég trúi því og það segir nóg.

Og svo eru það fötin okkar. Íslendingar elska H&M. Ef maður sér ljósmynd af Íslendingi í útlöndum eru talsverðar líkur á því að hann haldi á H&M poka. Það er dálítið síðan að það kom í ljós að fötin eru saumuð í hálfgerðum þrælabúðum (sweatshop). Fyrir tveimur vikum hrundi átta hæða verksmiðja í Bangladesh vegna þess að hún var í svo slæmu ásigkomulagi. Það var búið að vara við því enginn hlustaði. Yfir 900 manns, fyrst og fremst konur, hafa fundist látnir í rústunum og talan fer ört vaxandi. Vinnufólkið vann við ömurleg skilyrði að sauma föt handa okkur, fólkinu í „fyrsta“ heiminum. (Hvað er annars málið með þessi fáránlegu hugtök? Fyrsti heimur, þriðji heimur? Væri ekki ágætt að kalla þetta eitthvað annað?)

Það er erfitt að segja með vissu hvaða fyrirtæki voru að láta sauma fyrir sig í verksmiðjunni sem hrundi. Það er talað um Wal-Mart, Primark, C&A, Mango, Benetton, H&M og mörg fleiri en fréttirnar eru misvísandi. Ætli fyrirtækin sjálf hjálpi ekki til við það? Það eina sem ég get sagt með nokkurri vissu er að þú sem ert að lesa þetta átt alveg örugglega flík frá fyrirtæki sem notast við þrælabúðir, hvort sem þau höfðu aðsetur í verksmiðjunni eða ekki. Ég er í H&M bol í þessum töluðu orðum. En minnkar salan hjá þeim? Eða ætli sala á merkjunum sem verksmiðjufólkið saumaði fyrir lækki? Nei, líklega ekki. Þetta er einn af þessum hlutum sem ég skil ekki.

Maturinn okkar virðist líka vera vandamál. Um páskana fór sú umræða af stað hvort súkkulaðið í páskaeggjunum okkar kæmi frá fyrirtækjum sem taka þátt mansali. Um 70% af kakóframleiðslu heimsins fer fram í Vestur-Afríku þar sem börn vinna. Þeim er stolið og þau eru síðan seld og neydd til að vinna á kakóplantekrum.

Ef þið viljið vita meira mæli ég með heimildarmyndinni The Dark Side of Chocolate. En þótt við vitum þetta höldum við áfram að borða súkkulaði með bestu lyst. Er það ekki svolítið skrítið? Eða er kannski ekkert skrítið við það? Er heimurinn „bara svona“?

Umræða um mansal á Íslandi tengist yfirleitt vændi en kannski er tímabært að skoða allt hitt mansalið sem á sér stað og við öllsömul tökum þátt í með því að velja tiltekna vöru. Það er hægt að tína til fleiri dæmi. Þetta er bókstaflega alls staðar í kringum okkur.

Við þrífumst á hlutum sem eru framleiddir við ömurleg skilyrði. Fyrst við vorum að tala um súkkulaði er ágætt að minnast á Nestlé (barnaþrælkun, umhverfisspjöll, etc.). Nestlé framleiðir vörur eins og Maggi, Nespresso, Haagen-Dazs, Oreo, Smarties, Kit Kat og 8000 aðrar. Það er mjög líklega Nestlé vara í eldhúsinu þínu. Við vitum öll hvernig Ísrael fer með Palestínu en samt höldum við áfram að kaupa ísraelskar vörur (Coca-Cola, L’Oreal, Victoria’s Secret).

Mörg af þekktustu merkjum heims stunda viðskipti við kínverska risann Foxconn (Apple, Google, Nokia, Microsoft, Nintendo, Sony) en há sjálfsmorðstíðni starfsfólks þess hefur verið viðvarandi vandamál um nokkurra ára skeið. Samt er ég að skrifa þennan pistil á Apple tölvu og nota Google mér til hjálpar. Og samt höldum við áfram að kaupa vörur frá öllum þessum fyrirtækjum og fleirum til sem bera ábyrgð á mansali, barnaþrælkun, venjulegri þrælkun, mengun, eyðingu regnskóga, fátækt í þróunarríkjum, og í staðinn rífumst við um það hvort Sigmundur Davíð og Bjarni Ben fengu sér vöfflur eða pönnukökur með kaffinu.

Það er eins og fókus heimsins sé á vitlausum stað. Kannski viljandi. Kannski óvart.

Eða kannski er okkur öllum bara alveg sama.



Uppfært 15. 5.

Í fyrri útgáfu af þessari grein var getið þess að Lindex framleiði fatnað í Ísrael og tengt við umræðu þar um sem við nánari skoðun kom í ljós að var ekki rétt.  Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×