Viðskipti innlent

Seðlabankinn dregur úr hagvaxtarspá sinni

Seðlabankinn hefur dregið úr hagvaxtarspá sinni fyrir þetta ár. Nú gerir bankinn ráð fyrir að hagvöxtur nemi 1,8% í ár en í febrúar s.l. spáði Seðlabankinn 2.1% hagvexti.

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem birt hafa verið á vefsíðu hans. Þar segir að gengi krónunnar hefur styrkst töluvert að undanförnu þrátt fyrir frekari rýrnun viðskiptakjara. Alþjóðleg efnahagsumsvif hafa verið minni en áður var spáð og alþjóðlegar hagvaxtarhorfur versnað. Óvissa og ótti um nýjan efnahagssamdrátt hafa þó minnkað.

Gert er ráð fyrir að hægfara efnahagsbati meðal helstu viðskiptalanda nái að festa rætur þegar líða tekur á þetta ár. Þótt þróun innlendrar eftirspurnar í fyrra hafi verið í takt við febrúarspá Peningamála, reyndist hagvöxtur nokkru minni. Gert er ráð fyrir minni hagvexti í ár en spáð var í febrúar eða 1,8% í stað 2,1%. Endurspeglar það fyrst og fremst talsvert lakari horfur um þróun atvinnuvegafjárfestingar, byggt á nýjum upplýsingum um fjárfestingaráform innlendra fyrirtækja fyrir árið í ár.

Þótt hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár séu einnig taldar lakari en í febrúar, er áfram gert ráð fyrir ágætum hagvexti eða 3-3½% á ári. Gangi spáin eftir verður meðalhagvöxtur í ár og næstu tvö ár 2,8%, sem er svipað meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og með því mesta meðal þróaðra ríkja. Innlendur efnahagsbati heldur því áfram, þótt hann hafi verið hægari en áður hafði verið vonast eftir.

Nýjustu vísbendingar benda einnig til áframhaldandi bata á vinnumarkaði. Starfandi fólki hélt áfram að fjölga á fyrsta ársfjórðungi og svo virðist sem meðalvinnutími sé hættur að styttast. Heildarvinnustundum fjölgaði nokkru meira en spáð var í febrúar. Atvinnuleysi er komið niður í 4,6% þegar tekið hefur verið tillit til árstíðar. Hefur atvinnuleysi minnkað og hlutfall starfandi hækkað meira að undanförnu en að jafnaði í öðrum OECD-ríkjum. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað í 4% í lok spátímans, um mitt ár 2016, sem er svipað og spáð var í febrúar.

Líkt og Seðlabankinn spáði hefur verðbólga hjaðnað tiltölulega hratt undanfarið og mældist 3,3% í apríl. Kjarnaverðbólga og aðrir mælikvarðar á innlenda verðbólgu hafa hins vegar hjaðnað hægar. Það ásamt langtímaverðbólguvæntingum umfram markmið bendir til þess að enn sé nokkur verðbólguþrýstingur til staðar. Hærra gengi krónunnar og hægari efnahagsumsvif valda því að verðbólguhorfur hafa heldur batnað frá því í febrúar, en á móti vegur að launahækkanir hafa verið meiri en áður var talið og horfur eru á hægari framleiðnivexti á spátímanum, sem leiðir til þess að launakostnaður á framleidda einingu eykst meira.

Sem fyrr er nokkur óvissa um gengis- og verðbólguhorfur og styrk og varanleika innlends efnahagsbata, sérstaklega í ljósi óvissu um alþjóðlegar efnahagshorfur. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×