Viðskipti innlent

Íslendingar ganga á sparifé sitt

Íslendingar hafa gengið á sparifé sitt að undanförnu. Þetta á bæði við einstaklinga/heimilin og lögaðila.

Fjallað er um málið í Peningamálum Seðlabankans sem birt hafa verið á vefsíðu bankans. Þar segir að heildarinnlán innlendra aðila í innlánsstofnunum drógust saman um 5,7% á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama fjórðung í fyrra. Á sama tíma drógust innlán heimila saman um 2,1%.

Innlán heimila jukust mikið í kjölfar hruns bankakerfisins eða um 36% á árunum 2008 og 2009. Þegar þau urðu mest í júlí 2009 námu þau tæplega 800 milljarðar kr. eða 53% af landsframleiðslu.

Undanfarin þrjú ár hafa innlán heimilanna dregist saman um fjórðung og eru nú svipuð og þau voru á vormánuðum 2008. Framan af endurspeglaði þetta að einhverju leyti tilfærslu sparnaðar í sparnaðarform sem gáfu af sér betri ávöxtun, en það virðist ekki skýra samdrátt innlána undanfarið. Hann endurspeglar því frekar að heimilin hafi gengið á sparnað sinn til að fjárfesta í fasteignum, greiða niður lán eða til að fjármagna neyslu á varanlegum og hálfvaranlegum neysluvarningi vegna lágrar raunávöxtunar innlána.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×