Skoðun

Gleymdum ekki og gleymum ekki lífeyrisþegum

Björk Vilhelmsdóttir skrifar
Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka var unnin afar mikilvæg vinna undir forystu Samfylkingarinnar um breytingar á almannatryggingum með það að markmiði að hækka lífeyri almannatrygginga, afnema skerðingar og einfalda kerfið.

Góð sátt náðist við Landsamtök eldri borgara um breytingarnar og var lagt fram frumvarp til Alþingis í mars. Ekki náðist að samþykkja þetta, en mikilvægt er að komandi Alþingi og ríkisstjórn skapi svigrúm til að mæta þeim útgjöldum sem þetta frumvarp leiðir af sér – þannig að eldri borgarar og síðan öryrkjar fái notið góðs af.  

Þá var gert samkomulag stjórnvalda og lífeyrissjóða um hækkun frítekjumarks vegna tekna úr lífeyrissjóðum. Það kallar á viðbótarútgjöld upp á 3.7 milljarða næstu tvö árin. Umdeilt og erfitt bráðabirgðaákvæði frá árinu 2009 sem jók skerðingarhlutfall tekjutryggingar fellur úr gildi í ársbyrjun 2014 skv. samkomulaginu.

Makatengingar afnumdar

Strax í upphafi þessa kjörtímabils, haustið 2009, afnámum við makatengingar í almannatryggingakerfinu. Sú aðgerð nýttist þúsundum kvenna sem höfðu litlar og skertar almannatryggingar vegna tekna maka sinna. Af þessu mannréttindaskrefi  er Samfylkingin stolt.

En það hafa verið tekin fleiri góð skref. Framfærsluuppbót var sett sem tryggir öllum lágmarkslífeyri. Nú er hann 211 þús. á mánuði fyrir fólk sem rekur heimili.

Einfaldara og skýrara kerfi

En aftur að frumvarpinu sem lagt var fram í mars. Þar voru bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót  sameinaðir. Dregið er úr tekjutengingum og frítekjumörk afnumin. Ekki er horft til þess hvaðan tekjur koma, heldur lækkar lífeyrir um 45% af tekjum, hvort sem það eru atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur. Nú mega ellilífeyrisþegar sem fá greidda uppbót vegna framfærslu sæta því að uppbótin lækki um krónu á móti krónu fái þeir einhverjar tekjur.

Hvað ef …

Helmingaskiptastjórn. Það segir sig sjálft að ef lækka á skatta eða lækka skuldir hjá efnameira fólki þá verður ekkert svigrúm til þess að hækka almannatryggingar og greiða fyrir samkomulagið um að taka til baka þær sáru skerðingar sem lífeyrisþegar urðu fyrir.

Þessar skerðingar voru líka sárar fyrir jafnaðarmenn – því ekkert er þeim sárara en að skera niður á þá sem lægstar hafa tekjurnar og eru háðir samábyrgð samfélagsins.

Atkvæði greitt Samfylkingunni. Við Samfylkingarfólk heitum lífeyrisþegum að vinna áfram að hagsmunamálum þeirra. Að berjast fyrir auknum útgjöldum ríkissjóðs í þágu þeirra og að gera frumvarpið að lögum sem einfaldar, bætir og hækkar greiðslur almannatrygginga.

Björk Vilhelmsdóttir , skipar 3ja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík Suður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×