Viðskipti innlent

OZ fékk 300 milljónir til vöruþróunar

Hópur fjárfesta hefur lagt 300 milljónir í vöruþróun hjá OZ ehf. hér á landi. OZ ehf. er nýtt sprota- og hugbúnaðarfyrirtæki sem mun brátt bjóða Íslendingum að upplifa sjónvarp á nýjan máta á öflugu dreifikerfi fyrirtækisins.

Í tilkynningu segir að teymi hafi undanfarið unnið að þessari vöruþróun, undir stjórn Guðjóns Má Guðjónssonar og nálgast nú sá tímapunktur að afurðin komist í hendur almennings.

Með OZ lausninni er hægt að upplifa háskerpu sjónvarp með iPad, iPod,iPhone og í gengum Apple TV. Fólk stýrir sinni dagskrá sjálft, getur tekið upp sitt uppáhaldsefni til einkanota sem geymt er á tölvuskýi, horft á beina útsendingu, þar sem möguleiki er á að gera hlé og spóla til baka og það allt óháð staðsetningu.

„OZ er ný nálgun á sjónvarpi og eitthvað sem markaðurinn kallar eftir. Með tækni OZ breytist sjónvarpáhorf yfir í nýja tegund upplifunar til að mæta þörfum áhorfenda um aukið frelsi og meiri sveigjanleika. Auk þess er allt á einum stað til að njóta upplifunar á sjónvarpi.“ – segir Guðjón Már Guðjónsson í tilkynningunni.

Fyrst verður horft til íslenska markaðarins en næstu skref félagsins verða á alþjóðamarkaði. Nú þegar eru samningaviðræður hafnar við erlendar efnisveitur og framleiðendur tölvu- og raftækja til að tryggja útbreiðslu.

Prófanir á kerfinu hafa staðið yfir síðustu mánuði og hefur árangurinn verið framar væntingum. Áhugi Íslendinga hefur ekki látið á sér standa og nú þegar hafa þúsundir skráð sig til leiks og biðlistinn stækkar hratt. Opnað verður fyrir nokkur hundruð notendur til viðbótar innan skamms og geta áhugasamir skráð sig á heimasíðu OZ á www.oz.com. Allir sem eru skráðir á póstlistann munu fá frían prufuaðgang að OZ við útgáfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×