Viðskipti innlent

Samál hafnar ásökunum um misnotkun á skattalöggjöfinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Álverið að Grundartanga, þar sem meir en 1500 milljónir voru greiddar í tekjuskatt í fyrra.
Álverið að Grundartanga, þar sem meir en 1500 milljónir voru greiddar í tekjuskatt í fyrra. Mynd/ GVA.
Samál, samtök álframleiðenda á Íslandi, hafna algjörlega ásökunum um að fyrirtæki í áliðnaði greiði engan tekjuskatt á Íslandi. Málið hefur verið til umræðu að undanförnu eftir að því var haldið fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að Alcoa Fjarðaál og Norðurál kæmu sér hjá því að greiða tekjuskatt hér á landi.

Samál bendir á, líkt og fram kom í Kastljósinu, að Álfyrirtækin starfi í fullu samræmi við íslensk lög, reglur og fjárfestingasamninga sem þau hafa gert við íslenska ríkið. Í samræmi við ákvæði skattalaga greiði fyrirtæki með mikla skuldsetningu vegna uppbyggingar og mikilla fjárfestinga ekki tekjuskatt meðan verið sé að fjármagna fjárfestingarnar.

Þetta eigi við um Alcoa, sem sé ungt fyrirtæki á Íslandi og enn að fjármagna uppbyggingu sína hér á landi. Alcoa hafi þó engu að síður greitt fyrirframgreiddan tekjuskatt, um einn milljarð króna, árin 2010 - 2012 í samræmi við samkomulag við ríkisstjórn Íslands.

„Umfjöllun Kastljóss á að engu leyti við um Norðurál á Grundartanga, sem undanfarin ár hefur verið meðal hæstu greiðenda á opinberum gjöldum hér á landi og sá lögaðili sem hæstu gjöldin greiddi á síðasta ári fyrir utan ríki og fjármálastofnanir. Þar af var tekjuskattur 1.534 milljónir, fyrir utan fyrirframgreiddan tekjuskatt og raforkuskatt," segir í yfirlýsingunni.

Þá segir að Rio Tinto Alcan á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík, hafi greitt 33% tekjuskatt til ársins 2005 samkvæmt upphaflegum fjárfestingarsamningi álversins. Þær greiðslur hafi numið frá 4 til 14 milljónum dollara á hverju ári, a.m.k. aftur til ársins 1997, eða um 500-1.800 milljónum króna á núverandi gengi. Undanfarin fimm ár hafi Rio Tinto Alcan á Íslandi greitt alls 5,2 milljarða króna í tekjuskatt eða um 1 milljarð á ári að jafnaði.

Samál segir að erlendar fjárfestingar í áliðnaði á Íslandi hafi gefið góða raun og fjarri lagi sé að fullyrða að fyrirtæki í þessari grein leggi of lítið til hagkerfisins. Þau hafi skotið nýrri stoð undir efnahagslífið og standi undir fjórðungi útflutingstekna. Innlendur virðisauki af starfsemi þeirra hafi verið um 100 milljarðar á síðasta ári og muni um minna. Þá hafa fyrirtæki í greininni greitt um 4-5 milljarða á ári í opinber gjöld síðustu ár. Á árinu 2012 greiddu íslensku álfyrirtækin 14,5 milljarða króna í laun og launatengd gjöld og stóðu undir 20 prósentum allra fjárfestinga í landinu, fyrir sem nemur 30 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×