Innlent

„Kokkurinn kom hlaupandi á móti okkur úr eldhúsinu“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Veitingastaðurinn Vegamót er við Vegamótastíg.
Veitingastaðurinn Vegamót er við Vegamótastíg. Mynd/Pjetur
„Fyrsti kokkurinn var nýmættur og var að kveikja undir hellum, fara að sjóða súpu og svona," segir Óli Már Ólason, eigandi veitingastaðarins Vegamót við Vegamótastíg, þar sem varð gassprenging í eldhúsi í morgun. „Þegar hann kveikti á einni hellunni stíflaðist ein gashellan, við vitum ekki ennþá af hverju, og það kom stór blossi og öll tækin í eldhúsinu færðust til."

Óli var staddur á skrifstofu á efri hæð ásamt öðrum manni, en einn þjónn var einnig mættur til vinnu. „Við heyrum sprenginguna og hlaupum niður og þá kom kokkurinn hlaupandi á móti okkur út úr eldhúsinu. En hann slapp sem betur fer. Ég hljóp og ýtti á neyðarhnapp sem stoppar allt gas inn í húsið. Svo hlupum við bara út og hringdum á slökkviliðið."

Segir Óli slökkviliðið hafa brugðist hratt við og verið komið örfáum mínútum síðar. Engar skemmdir hafi orðið en mönnum hafi vissulega verið brugðið.

„Já okkur dauðbrá auðvitað. En það meiddist enginn," segir Óli, og reiknar með að ná að opna veitingahúsið innan skamms.

„Við opnum vanalega klukkan 11 en náðum því ekki núna. Ætli við náum ekki að opna í hádeginu."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.