Innlent

Bjargvættur á Fáskrúðsfirði: "Ég var að drepast úr hræðslu og örvæntingu.“

Kjartan Reynisson hefur starfað hjá Loðnuvinnslunni í 30 ár.
Kjartan Reynisson hefur starfað hjá Loðnuvinnslunni í 30 ár.
Það var í febrúar árið 2010 sem löndunarmenn Hoffells á Fáskrúðsfirði voru að landa gulldeplu úr lestum skipsins. Þeir voru langt komnir með verkið þegar kom að síðustu lest skipsins.

Einn sjómaður fór ofan í lestina og missti þá meðvitund. Það uppgötvaðist fljótlega og fór þá annar sjómaður á eftir honum niður í lestina. Sá var með súrefnisgrímu fyrir vitum. Þegar hann kom að hinum meðvitundarlausa tók hann af sér grímuna og setti á félaga sinn. Vegna eitrunaráhrifa í lestinni missti hann sjálfur nær samstundis meðvitund.

„Ég var vakinn um fjögur um nóttina," segir Kjartan Reynisson útgerðarstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hann hefur starfað í 30 ár hjá fyrirtækinu en síðustu sjö árin sem útgerðarstjóri. Honum var strax tilkynnt hvað hefði gerst og hraðaði sér því niður á höfn til þess að aðstoða við björgunina, sem allt í um 20 starfsmenn Loðnuvinnslunnar og fleiri komu að.

„Þeir voru að draga seinni manninn upp þegar ég kom," segir Kjartan þegar hann lýsir aðkomunni. Hann segist strax hafa hafist handa við að endurlífga sjómanninn á meðan hinir reyndu að hnoða lífi í hinn. Báðir sjómennirnir voru meðvitundarlausir og önduðu ekki.

Kjartan segir að það hafi hjálpað að hann hafi klárað námskeið í slysavarnaskóla sjómanna nokkrum mánuðum fyrr. Það skipti máli að hans sögn.

Spurður hvað hafi farið í gegnum huga Kjartans þegar hann reyndi að endurlífga sjómanninn, svarar hann einfaldlega: „Örvænting. Ég var að drepast úr hræðslu og örvæntingu."

Kjartan segir að hann hafi haldið ró sinni allan tímann og verið mjög ákveðinn í að koma manninum í gang aftur. Og það hafðist að lokum. „Þvílík guðsblessun sem það var," bætir Kjartan við.

Ástæðan fyrir því að mennirnir misstu meðvitund var rotnun í maga fisksins sem gerði það að verkum að það var algjörlega súrefnislaust ofan í lestinni. Á þessum tíma þekktu sjómenn ekki vel eitrunareinkenni gulldeplunnar, sem virðist rotna hraðar en talið var.

Spurður hvort atvikið sitji í honum svarar Kjartan: „Auðvitað. Svona lagað fylgir manni í gröfina."

Ástæðan fyrir því að Kjartan segir sögu sína í dag er sú að á morgun verður haldin árleg ráðstefna um forvarnar- og öryggismál fyrirtækja á vegum VÍS og Vinnueftirlitsins.

Þar verður fjallað um ábyrgð og skyldur stjórnenda og eigenda fyrirtækja í öryggismálum frá mörgum hliðum undir formerkjunum: Slysalaus framtíð – okkar ábyrgð.

Þar mun Kjartan lýsa reynslu sinni auk þess sem Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa í Evrópu flytur aðalerindi ráðstefnunnar sem. Ráðstefnan fer fram í húsakynnum VÍS í Ármúla 3, á 5. hæð á milli kl. 13 og 16.

Að lokum má bæta við að mennirnir sem misstu meðvitund eru við góða heilsu í dag. Hér má svo lesa og horfa á frétt sem var gerð um málið þegar það kom upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×