Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Horft til breytts eignarhalds á fjármálakerfinu

Magnús Halldórsson skrifar
Endurreistu bankarnir þrír, gætu mögulega skipt um eigendur í framtíðinni, og lífeyrissjóðirnir eignast í þeim stóra eignarhluti, ásamt öðrum fagfjárfestum.
Endurreistu bankarnir þrír, gætu mögulega skipt um eigendur í framtíðinni, og lífeyrissjóðirnir eignast í þeim stóra eignarhluti, ásamt öðrum fagfjárfestum.
Hugmyndir hafa verið reifaðar við slitastjórnir Glitnis og Kaupþings, og síðan íslensk stjórnvöld og bankaráð Landsbankans, um að lífeyrissjóðir, og fleiri fagfjárfestar, eignist stóran hluta íslenska fjármálakerfisins.

Er ekki síst horft til þessa þar sem augljóst er að eignarhald á endurreistu bönkunum þremur, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum, er eins og sakir standa ekki með þeim hætti eins og æskilegt þykir til framtíðar litið. Kröfuhafar Glitnis eiga 95 prósent hlut í Íslandsbanka og íslenska ríkið 5 prósent. Kröfuhafar Kaupþings eiga 87 prósent hlut í Arion banka og íslenska ríkið 13 prósent, og hjá Landsbankanum á íslenska ríkið ríflega 80 prósent og kröfuhafar gamla Landsbankans afganginn. Auk þess er fyrir hendi gjaldeyrisskuld Landsbankans gagnvart þrotabúi gamla bankans upp á um 300 milljarða króna.

Greitt með hluta erlendra eigna

Hugmyndirnar sem nú eru ræddar, og hafa verið það undanfarna mánuði, snúast í stórum dráttum, samkvæmt heimildum fréttastofu, um að lífeyrissjóðirnir íslensku eignist stóran hlut í hinum endurreistu bönkum, einum eða fleirum, og greiði fyrir það með erlendum eignum, í það minnsta að einhverju leyti. Eins og fram kom í fréttum í dag, eftir að DV greindi frá því í morgun að kaup á hlut í Íslandsbanka væru nú til umræðu, hefur Framtakssjóður Íslands meðal annars viðrað hugmyndir um að sjóðurinn komi að kaupum á hlut í bönkunum, ásamt fleiri fjárfestum, meðal annars Skúla Mogensen og fleiri hluthöfum MP banka. Skúli vildi ekki tjá sig um þessi mál í dag, þegar fréttastofa leitaði til hans, né forstjóri MP banka, Sigurður Atli Jónsson.

Ekki augljóst

Ýmsar hindranir eru þó í veginum fyrir því að viðskipti sem þessi geti gengið hratt og örugglega fyrir sig. Meðal annars er stærsti eigandi Framtakssjóðsins Landsbanki Íslands, með 28 prósent hlut, en aðrir eigendur eru 16 lífeyrissjóðir, og síðan á VÍS óverulegan hlut sömuleiðis. Líklegt má telja að eignarhald sjóðsins á stórum hluta í Íslandsbanka eða Arion banka kæmi inn á borð Samkeppniseftirlitsins af þessum sökum. Auk þess þyrfti enn fremur að fara fram hefðbundið mat að hálfu Fjármálaeftirlitsins, þar sem nýir eigendur þurfa að standast mat eftirlitsins.

Erfitt að segja til um verð

En hvers virði eru bankarnir? Það er erfitt að segja, eins og mál standa nú. Sé sérstaklega horft til Íslandsbanka eru heildareignir bankans metnar á um 813 milljarða og eigið fé er 140 milljarðar. Heildareignir Arion banka eru metnar á 876 milljarða og eigið fé bankans er 128 milljarðar. Landsbankinn er stærsti bankinn með heildareignir upp á 1.056 milljarða og eigið féð ríflega 200 milljarðar. Í ljósi þess hve vanskilahlutfall hefur verið hátt hjá endurreistu bönkunum, í samanburði við erlenda banka, er erfitt að segja til hvernig eignasöfn þeirra eru metin ef til viðskipta kemur.

Heildareignir lífeyrissjóðanna eru nú metnar á 2.390 milljarða þar af er erlend verðbréfaeign upp á tæplega 550 milljarða. Horft er til þess að þessar breytingar á eignarhaldi á fjármálakerfinu geti styrkt það til framtíðar litið, ekki síst þar sem stór hluti kröfuhafa í þrotabú föllnu bankanna eru skammtímafjárfestar eins og erlendir vogunar- og skuldabréfasjóðir, og geti enn fremur auðveldað losun fjármagnshafta. Þá yrði ennfremur til við þetta fjárfestingatækifæri fyrir lífeyrissjóðina sem hafa haft takmörkuð fjárfestingatækifæri innan fjármagnshafta allt frá hruni, en fjárfestingaþörf þeirra á mánuði er 12 til 13 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×