Handbolti

Guðjón Valur: Ábyrgðin hvílir á mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson segir að hann hafi gert of mörg mistök í leiknum gegn Rússum á HM í handbolta í dag.

Ísland tapaði fyrir Rússlandi, 30-25, eftir að hafa verið með þriggja marka forystu snemma í síðari hálfleik.

„Við ætluðum okkur allt aðra hluti í þessum leik. Þetta er klárlega vont, enda finnst mér við vera betri. En maður verður að vera hreinskilinn og þetta var okkur sjálfum að kenna."

„Við gerðum haug af mistökum og þar fór ég fremstur í flokki. Ég tek þetta á mínar herðar. Ég væri annars ekki að segja þetta. Ég vil gera meiri og betri hluti en ég gerði í dag."

„Við brotnuðum svo algjörlega síðustu tíu mínúturnar og það má ekki gerast. Frá 10. mínútu til 45. mínútu fannst mér við vera með þá. Þeir vissu í raun ekki hvað þeir ættu að gera. En þá var algjör skipsbrot hjá okkur."

Ísland mætir Síle á morgun og þarf nauðsynlega á sigri að halda. „Það er það skemmtilega við stórmótin. Maður er svekktur í smástund en svo gleymist þetta. Það er nýr dagur á morgun og enn mikið eftir af riðlakeppninni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×