Skoðun

Hvaða lögun tekur ESB í framtíðinni?

Ein er sú umræða sem verður æ mikilvægari: Hvernig mun Evrópusambandið þróast á komandi árum? Áhersla stjórnmálanna undanfarið hefur fyrst og fremst verið á að hafa hemil á þeirri krísu sem skekið hefur heiminn, stundum að því marki að erfitt er að greina hvort fylgt sé skýrri stefnu.

Eftir fjölmarga fundi hefur leiðtogaráð ESB komist að þeirri niðurstöðu að unnið skuli að frekari samruna. Þessi leið hefur verið samþykkt, þó ekki án tregðu nokkurra aðildarríkjanna, en hin þýska forysta (sem leggur til lausnir og streitist gegn öðrum) hefur tekið þá afgerandi afstöðu að útiloka aðra valkosti frá umræðunni. Á síðustu þremur og hálfu ári hefur gömul umræða einnig komið fram í dagsljósið: Getum við ætlað öllum aðildarríkjunum að fara á sama hraða? Ef ekki, hvernig á þá að nálgast þessar aðstæður? Lausnin hefur verið fólgin í svokölluðum breytilegum samruna, en þannig geta sum lönd tekið frekari þátt í samrunanum, á meðan aðrir ílengjast í biðstofunni.

Þó getur verið erfitt að viðhalda þessari skynsamlegu nálgun. Sem dæmi má nefna að sáttmálinn um samræmi í ríkisfjármálum (e. fiscal compact) hefur verið samþykktur og fullgiltur af 25 aðildarríkjum – Bretland og Tékkland sögðu nei. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem frumkvæði hefur verið innleitt sem á uppruna sinn utan aðgerðaramma ESB – það var einnig raunin með Schengen-svæðið. Ástandið getur þó haft í för með sér óþekktar afleiðingar þar sem sáttmálinn um samræmi í ríkisfjármálum er áfangi á leið til frekari samþættingar á öðrum stefnum (t.d. bankasamstarfi og ríkisfjármálasambandi). Þá er það enn mikilvægara að allar þær leiðir og gerningar sem hafa verið skapaðar á síðustu árum, sem og þær sem eru í burðarliðnum, eru mótaðar fyrir evrusvæðið.

Aukinn sveigjanleiki

Því lengra sem evrusvæðið gengur til að leiðrétta annmarka sína, þeim mun meira eykst bilið á milli þess, þeirra ESB-ríkja sem bundin eru af samningum um að sameinast á einhverjum tímapunkti, og þeirra sem hafa valið að taka ekki þátt í evrusamstarfinu (Bretland og Danmörk). Að sama skapi verður þeim mun erfiðara að viðhalda jafnvægi innan ESB en til að mynda erum við nú að hugleiða fjárhagsáætlun fyrir evrusvæðið, sniðmát fyrir evrusvæðið í Evrópuþinginu o.s.frv. Þar að auki hafa sum lönd ákveðið að taka samrunann skrefinu lengra. Ellefu ríki innan evrusvæðisins hafa ákveðið að koma á sameiginlegum skatti á fjármálaviðskipti.

Breytilegur samruni er ekki nýtt fyrirbæri, en ósvaraðar spurningar kunna að skjóta upp kollinum á næstu árum, þar sem breytilegur samruni gæti færst frá því að vera sjálfgefinn yfir í að vera markmið í sjálfu sér. Þetta gæti til að mynda falið í sér að sum verkefni væru aðeins ætluð sumum aðildarríkjum og ekki öðrum.

Umræðan í Bretlandi bætir einnig nýrri vídd við þessa umræðu: Hvað ef ein-stærð-hentar-öllum samruninn hefur náð eins langt og hann getur og að það sé kominn tími til að bjóða upp á meiri sveigjanleika fyrir þau lönd sem vilja taka þátt í nýjum og spennandi stefnum? Mikilvægi þessarar spurningar mun vaxa þar sem samruni fær á sig æ neikvæðari blæ meðal almennings í ríkjum Evrópusambandsins.




Skoðun

Sjá meira


×