Viðskipti innlent

Tíu prósentum minna í vexti

Íslendingar greiddu tíu prósentum minna í vexti af íbúðalánum í fyrra en árið áður.
Íslendingar greiddu tíu prósentum minna í vexti af íbúðalánum í fyrra en árið áður. Fréttablaðið/Stefán
Íslensk heimili greiddu rúmlega tíu prósentum minna í vexti af íbúðalánum árið 2011 en árið á undan. Þetta kemur fram í úttekt fjármálaráðuneytisins.

Í fyrra nam vaxtakostnaður vegna íbúðakaupa tæpum 55 milljörðum króna, en árið 2010 greiddu Íslendingar rúmlega 61 milljarð í vexti af íbúðalánum.

Vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðsla sem koma til úthlutunar í ár eru af þeim sökum nokkuð lægri en í fyrra. Samtals er um að ræða 14,5 milljarða í ár samanborið við 18,3 milljarða í fyrra, sem er rúmlega fimmtungslækkun milli ára.

Þannig fá íbúðaeigendur 26,6 prósent af vaxtakostnaði sínum endurgreidd í ár en fengu 30 prósent í fyrra.

Stjórnvöld telja þessar tölur sýna fram á að margt hafi þróast heimilum í hag í þessum efnum. Breytingar á úthlutun vaxtabóta eftir hrunið og auknir fjármunir sem settir hafi verið í að bæta stöðu heimilanna hafi bætt stöðu „þeirra sem voru í veikastri stöðu".

Vaxtakostnaður heimilanna vegna íbúðalána, að frádregnum vaxtabótum, nam í fyrra rúmum fjórum prósentum af skattskyldum tekjum, en var tæp fimm prósent árið 2010.- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×