Innlent

Nýr foss orðinn til við Hrauneyjar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tilkomumikill foss, og einn sá aflmesti á landinu, hefur myndast neðan Hrauneyjafossvirkjunar vegna virkjanaframkvæmda við Búðarháls. Hann verður þó aðeins sýnilegur í eitt ár.

Hann er meira en tvöfalt hærri en Urriðafoss, fallhæðin er um fimmtán metrar, og þarna fossa niður yfir 150 rúmmetrar vatns á hverri einustu sekúndu. Aflið jafngildir 35 megavöttum.

Þetta er þó engin náttúrusmíð heldur mannanna verk. Fossinn, eða kannski flúðirnar, er afleiðing af tilfærslu vatnafarvega Tungnaár neðan Hrauneyjafossvirkjunar, í þeim tilgangi að virkja aflið í Búðarhálsvirkjun, sem nú er smíðum. Vatnið fossar fram af 170 metra breiðri yfirfallsrennu væntanlegrar Sporðöldustíflu, sem verður byggð upp á næstu mánuðum sem meginstífla hinnar nýju virkjunar.

Þessi manngerði foss mun þó aðeins sjást svona tilkomumikill í rúmt ár því hann mun hverfa síðla næsta sumars þegar byrjað verður að safna vatni í fyrirhugað virkjunarlón. Ef ástæða þykir til að taka vatnið af Búðarhálsvirkjun vegna viðhalds gæti fossinn hugsanlega sést aftur eftir nokkra áratugi.

Fossinn er neðst í Þóristungum, um þrjá kílómetra norðaustan við hálendismiðstöðina Hrauneyjar, skammt neðan við brúna yfir afrennsli Hrauneyjafossvirkjunar.


Tengdar fréttir

Vinnan á Búðarhálsi í hámarki

Yfir þrjúhundruð manns eru að störfum á hálendinu við smíði Búðarhálsvirkjunar þar sem framkvæmdir eru nú í hámarki. Búið er að steypa upp stöðvarhúsið og flest bendir til þess að virkjunin verði kláruð á tilsettum tíma. Búðarháls er langstærsti nýbyggingarstaður á Íslandi um þessar mundir, þarna starfa um 310 manns í sumar, langflestir á vegum aðalverktakans, Ístaks, en þorri starfsmanna eru Íslendingar.

Allir vinnudagar hefjast á öryggisandakt

Allir vinnudagar á Búðarhálsi byrja á því að starfsmenn koma saman á svokallaða öryggisandakt. Með aðferðum sem þessum hefur tekist að koma í veg fyrir alvarleg vinnuslys á einum hættulegasta vinnustað landsins. Þarna þurfa menn að varast tröllaukna trukka á fleygiferð, bakkandi steypubíla, stóreflis hjólaskóflur mokandi fram og til baka, oddhvassa gaffallyftara sem skjótast fram hjá og himinháa krana sveiflandi þungum stykkjum allt um kring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×