Skoðun

Jón eða séra Jón

Hulda Bjarnadóttir skrifar
Fyrir skömmu var lagt fram frumvarp sem miðar að því að banna alfarið íslenskar áfengisauglýsingar. Tilgangurinn er að vernda heilsu landans. Hversu sanngjarnt er það fyrir hinn íslenska framleiðanda að mega setja pening í löglega íslenska framleiðslu, sem framleidd er undir íslenskri löggjöf og virku íslensku eftirliti, en að mega ekki koma henni á framfæri? Tvískinnungur gæti mögulega verið heiti á þeirri stöðu sem er komin upp.

Ef heilsa landans er höfð að leiðarljósi þarf þá ekki að banna sælgætis-, gos- og bílaauglýsingar svo eitthvað sé nefnt? Þar skapast vissulega hætta af óbeinni mengun eða jafnvel hætta á varanlegum skaða og sjúkdómum til framtíðar litið. Og hversu raunhæft er að framfylgja boðum og bönnum sem við búum við? Er forræðishyggjunni engin takmörk sett? Og hversu raunhæft er að fara fram með þessum hætti?

Auglýsingar á fótboltabúningumÞær áfengisauglýsingar sem ég verð vör við eru fyrst og fremst erlendar og birtast þær á innfluttum fótboltabúningum fyrir börn, á fótboltakappleikjum sem iðulega rúlla á skjánum um helgar hjá bóndanum og þegar ég kaupi mér erlend tímarit sem eru ætluð hinum ýmsu markhópum. Þau kaupi ég hérlendis sem erlendis. Því þyrfti löggjafinn að ganga svo miklu lengra til að tryggja að neytandinn verði aldrei var við áfengisauglýsingar og til að tryggja sanngjarna nálgun.

Það mætti til dæmis banna íþróttaútsendingarnar, banna innflutta neytendavöru sem er merkt áfengisvörumerki og svo mætti skella Internetinu í lás. Þá reyndar væri ríkisstjórnin búin að slá tvær flugur í einu höggi þar sem það á líka að fara að leggja fram frumvarp sem bannar erlend happdrætti á Netinu. Það þarf þó ekki nema að labba út á næsta götuhorn til að spila fjárhættuspil og ágóðinn rennur til háskólans og ýmissa samtaka hérlendis svo sem SÁÁ og Rauða krossins. Tvískinnungur enn og aftur? Eða kannski er eðlilegt að framkvæmd og forvörn sé sinnt á sitthvorum endanum.

Áhrif á val vörumerkisNeytandinn mun halda áfram að velja sér þá vöru sem er sýnilegust en að öðru leyti mun hann haga sér eins samkvæmt rannsóknum, þar sem áfengisauglýsingar hvorki auka né minnka áfengisneyslu. Þær hafa áhrif á val vörumerkis hverju sinni. Hvers á þá íslenski iðnaðurinn að gjalda ef hann má ekki auglýsa en bara hinir? Ef við segjum að Jón sé hinn íslenski framleiðandi en séra Jón erlendi áfengisrisinn sem keppir á alþjóðamarkaði þá er augljóst á hvorn Jóninn mun halla í þessum efnum.




Skoðun

Sjá meira


×