Skoðun

0-0-1 í Afríku

Þórir Guðmundsson skrifar

Morgunverður, hádegisverður, kvöldverður. Þessar alþjóðlegu matarvenjur halda okkur á lífi, gefa okkur starfsorku og eiga að duga okkur til lífs. Fólkið sem ég heimsótti nýlega í Vestur-Afríku þarf líka að borða þrisvar á dag til að halda sér gangandi en getur það ekki alltaf.

Þegar sultarólin herðist tala menn um 0-0-1. Þá er enginn morgunmatur, enginn hádegismatur, eingöngu kvöldmatur. Nú er hungurtímabilið, vikurnar eða mánuðirnir frá því uppskeran frá í fyrra var uppurin og fram að næstu uppskeru.

Í Gambíu varð nær algjör uppskerubrestur í fyrra, líkt og víðar á Sahel-svæðinu. Sjálfsþurftarbændur fengu aðeins einn fimmta af venjulegri hrísgrjónauppskeru. Hungurtímabil sumra, sem er venjulega einn til tveir mánuðir, varð fjórir til fimm.

Í Síerra Leone skildi harðvítug borgarastyrjöld landið eftir sem rjúkandi rúst. Tugþúsundir ungmenna búa við ömurlegar aðstæður, munaðarlaus, atvinnulaus og vonlítil. Skólakerfið getur ekki tekið við þeim og fyrir þeim liggur að ráfa svöng um götur bæja og borga, verða byrði á frændfólki eða strita í námum myrkranna á milli.

Í báðum þessum löndum hefur almenningur á Íslandi í gegnum Rauða krossinn gert nokkuð til að milda þjáningar þeirra verst stöddu.

Í Gambíu tókst okkur í sumar að dreifa hrísgrjónaútsæði til 40 þúsund manna sem sáu annars fram á að geta ekki einu sinni plantað, og þar með ekki fengið neina uppskeru í október. Um sex þúsund fengu líka mat til að þrauka versta hungurtímabilið.

Á hverju ári gefur Rauði krossinn á Íslandi 150 nauðstöddum ungmennum í Síerra Leóne tækifæri til náms, sem gerir þeim kleift að koma undir sig fótunum í einu fátækasta landi heims. Í menntaathvarfi Rauða krossins í Moyamba fá krakkarnir eina heita máltíð um miðjan dag.

Laugardaginn 6. október hvetur Rauði krossinn almenning til að ganga til góðs. Þú getur fundið söfnunarstöð í hverfinu þínu eða skráð sig í gönguna á Gongumtilgods.is. Stutt og gleðileg laugardagsganga með rauðan bauk gerir okkur kleift að hjálpa börnum í neyð. Aðstoðin gefur börnum von og fleiri geta sagst næra sig 1-1-1.




Skoðun

Sjá meira


×