Innlent

Skynjarar og eftirlit besta vörnin gegn gasóhöppum

Sala á gasskynjurum hefur aukist síðustu daga eftir sprengingu sem kostaði einn mann lífið í íbúðarblokk á sunnudag.
Sala á gasskynjurum hefur aukist síðustu daga eftir sprengingu sem kostaði einn mann lífið í íbúðarblokk á sunnudag.
Gassprengingin sem varð í íbúð við Ofanleiti hefur vakið almenning til umhugsunar um slysavarnir. Farsælast er talið að setja upp skynjara, vanda til verka við uppsetningu búnaðar og stunda reglulegt eftirlit.

Hvernig má best koma í veg fyrir slys og tjón af völdum gasnotkunar?

Margs konar öryggisbúnaður er í boði til að koma í veg fyrir óhöpp og skaða af völdum gasnotkunar á heimilum. Auk þess leggja sölufyrirtæki áherslu á að frágangur sé vandaður og vel sé fylgst með öllum búnaði í kringum gas.

Sprengingin sem varð í íbúð við Ofanleiti í Reykjavík um helgina og kostaði mann lífið hefur vakið marga til umhugsunar.

Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að þeir bjóði upp á tvenns konar lausnir í þessum málum og nokkur aukning hafi verið á sölu skynjara síðustu daga.

„Í húsnæði þar sem er gaseldavél mælum við með að settur sé skynjari tengdur kerfinu okkar. Hann gerir stjórnstöð viðvart ef gasleki verður. Fyrir þá sem ekki eru tengdir kerfinu erum við með staka skynjara sem virka eins og reykskynjarar og láta vita með hljóðmerki ef vart verður við gasleka.“

Gasnotkun á heimilum hefur aukist verulega síðustu ár, meðal annars þar sem fleiri nota nú gaseldavélar. Frá miðjum tíunda áratugnum og fram til 2007 varð til dæmis áttatíu prósenta aukning á gasnotkun heimila, og Guðmundur K. Rafnsson, framkvæmdastjóri Ísaga, sem selur gas meðal annars til heimilisnota, segir að notkunin hafi enn farið vaxandi síðustu ár.

Guðmundur segir Ísaga koma skýrum tilmælum til sinna viðskiptavina um meðferð á gasi og búnaði fyrir gasnotkun.

„Við leggjum til dæmis áherslu á að kútar séu alltaf uppréttir, slöngur séu skoðaðar reglulega og skipt um þær á tveggja til þriggja ára fresti og þegar skipt er um hylki sé alltaf gerð lekaleit við samskeyti annaðhvort með sérstöku spreyi eða einfaldlega með sápuvatni.“

Guðmundur bætir því við að þeir mælist líka til þess að gaskútar við eldavélar séu geymdir utandyra og tengdir inn með eirlögnum, slöngur við endana séu ekki meira en metri að lengd og sérstaklega sé fylgst með slöngum sem sólarljós fellur á því þær skemmist fyrr.

„Það er enginn skyldaður til neins, en við mælum með því að fólk komi upp skynjurum sem láta vita af gasleka.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×