Innlent

Sífellt fleiri vinna svart

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir svarta atvinnustarfsemi stórt vandamál í ferðaþjónustunni.
fréttablaðið/gva
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir svarta atvinnustarfsemi stórt vandamál í ferðaþjónustunni. fréttablaðið/gva
Svört atvinnustarfsemi virðist færast í vöxt í ferðaþjónustu og byggingastarfsemi. Þetta hefur komið í ljós í sumar í könnunum ríkisskattstjóra, Alþýðusambands Íslands (ASÍ), og Samtaka atvinnulífsins (SA), í tengslum við átakið Leggur þú þitt af mörkum? Átakinu er beint gegn svartri atvinnustarfsemi.

"Nú höfum við beint sjónum að ferðaþjónustunni og atvinnugreinum tengdum henni auk byggingastarfsemi," segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. "Það virðast ansi margir vera að koma inn í ferðaþjónustuna sem ekki eru með sín mál í lagi. Fyrirtæki eru rekin án leyfis og starfsmenn á atvinnuleysisbótum eru í svartri vinnu. Það eru margir smáir í þessu og keppa þá ekki á sama grunni."

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur undir það að svört atvinnustarfsemi sé stórt vandamál í ferðaþjónustunni. "Við höfum bent á að fjöldi gististaða hafi ekki starfsleyfi. Þessa aðila þarf að finna. Þarna eru peningar fyrir ríkissjóð ef menn taka almennilega á þessum vanda í stað þess að skattpína löghlýðin fyrirtæki. Þarna er verk að vinna. Auðvitað starfa flest öll fyrirtækin samkvæmt lögum og reglu en það er óþolandi fyrir þau að keppa við svarta markaðinn."

Að sögn Skúla eru talsverð brögð að því að í byggingastarfsemi séu menn sem í raun eru launþegar skráðir sem verktakar. "Þeir eru skráðir sem slíkir og eiga þá sjálfir að standa skil á öllum gjöldum. Í einhverjum tilvikum eru þeir á atvinnuleysisbótum."

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir ljóst að styrkja þurfi reglurnar í kringum atvinnustarfsemi og framkvæmdina til að tryggja að hægt sé að fylgja eftir þeim upplýsingum sem berast. "Það er ekki nóg að auka eftirlit," segir Halldór. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×