Skoðun

Biblían og bókstafurinn

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar
Nafnlausa auglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu um helgina vakti sterk viðbrögð. Auglýsingin og viðbrögðin gefa tilefni til að ræða um Biblíuna og notkun hennar í samtímanum.

Algeng og kannski eðlileg viðbrögð við því að sjá svona vitnað til texta um „saurlífismenn, skurðgoðadýrkendur, hórkarla, kynvillinga" eru að ganga út frá því að þar með sé hægt að slá einhverju föstu um afstöðu trúaðra um tiltekið efni – s.s. samkynhneigð – í samtímanum. En er það svo?

Biblían er trúarrit kristinna og inniheldur ólík rit frá ólíkum tímum, rituð í margvíslegum tilgangi. Í Biblíunni er margt sem er svo framandi okkur í menningu og tíma að það missir algjörlega marks að slengja því fram samhengislaust. Versið í auglýsingunni er gott dæmi um þetta. Ekki er með neinu móti hægt að halda því fram að þar sé fjallað um ástrík sambönd samkynhneigðra í samtímanum.

Um hvað fjallar textinn þá? Rannsóknir á Nýja testamentinu sýna að bréf Páls til safnaðarins í Korintu hefur ótal skírskotanir í siðfræði, rökfræði og venjur þess tíma. Þessi vers eru hluti af lastalista og ber að skoðast í samhengi við hugmyndir um dyggðir og sjálfsstjórn á 1. öld okkar tímatals.

Kristin manneskja byggir ekki trú sína á bókstöfum og lögmáli, heldur fyrirheitinu um frelsi og ást Guðs, eins og það birtist í Jesú frá Nasaret. Mælistikan á það sem stendur í Biblíunni er hvort það þjóni þessu frelsi eða vinni gegn því.

Bókstafshyggja, eins og sú sem lesa má úr auglýsingunni, er og hefur alltaf verið framandi stærstum hópi þeirra sem aðhyllast kristna trú. Að smætta kristni í bókstafstrú og tefla henni gegn manneskjunni, vinnur gegn eðli hennar og er til skaða í samfélaginu. Auglýsingin um helgina minnir okkur á það.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.