Erlent

Tveir látnir eftir árás óþekktra köngulóa

Ratul Rajkhowa, prófessor við líffræðideild Cotton College, heldur hér á dauðri könguló af tegund sem valdið hefur usla í afskekktu héraði í norðausturhluta Indlands.
Ratul Rajkhowa, prófessor við líffræðideild Cotton College, heldur hér á dauðri könguló af tegund sem valdið hefur usla í afskekktu héraði í norðausturhluta Indlands. Nordicphotos/AFP
Ný tegund stórra árásargjarnra köngulóa hefur valdið ofsahræðslu í þorpi í Assam, afskekktu héraði í Norðaustur-Indlandi. Íbúarnir kölluðu á hjálp eftir að fjöldi köngulóa „réðist inn“ í þorpið.

Tveir hafa látist eftir að hafa orðið fyrir köngulóarbiti, en fulltrúar heilbrigðisyfirvalda segja ekki loku fyrir það skotið að frumstæð viðbrögð við biti köngulónna kunni að hafa valdið fórnarlömbum þeirra meiri skaða en bitið sjálft. Í tilfellum þeirra sem létust höfðu „töfralæknar“ reynt að létta á þrýstingi í bólgum og ná út eitri með því að skera í bitstaði með rakvélarblöðum. Líkin voru svo brennd áður en til krufningar kom og því ekki vitað hvort meðferðin eða eitur köngulónna varð fólkinu að aldurtila.

Sjö önnur fórnarlömb köngulóa-árása hafa fengið sýklalyf, er haft eftir Anil Phapowali lækni í bænum Sadiya, en þau höfðu líka reynt að skera í bólgur til að veita úr þeim og létta á þrýstingi.

Köngulærnar eru sagðar árásargjarnar og stökkva á fólk verði þær varar við hreyfingu. Þeirra varð fyrst vart fyrir um mánuði síðan, en L.R. Saikia, vistfræðingur við Assam Dibrugrh Háskóla segir að hér gæti verið um að ræða áður óþekkt afbrigði tarantúlu. Köngulærnar eru um þumalstórar.

Meðan beðið er niðurstöðu greiningar á köngulónum og hvort þær eru í raun eitraðar eru þorpsbúar sagði varir um sig og reyna að gæta þess að köngulær laumist ekki inn í kofa þeirra að næturlagi.

Um hundrað þúsund manns, aðallega fátækir hrísgrjónabændur, búa á svæðinu þar sem köngulónna hefur helst orðið vart. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×