Skoðun

Friðun í herkví sveitarfélaga og bænda

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, segir í fréttaskýringu (Friðlýsing náttúrusvæða) Fréttablaðsins þann 29. desember sl. að náttúruverndaráætlun Alþingis sé nokkurs konar óskalisti þingsins um svæði sem það vill sjá friðlýst en séu strand, og ekki hafi tekist að hreyfa við. Oft er það vegna andstöðu viðkomandi sveitarfélags eða landeigenda. Sú staða geti komið upp að einn landeigandi af mörgum sé andsnúinn friðun og þá sé málið komið í hnút. Þannig hefur oft nauðsynleg verndun landsvæða, jafnvel á landi ríkisins, og hagsmunir heildarinnar orðið að víkja fyrir eiginhagsmunum búfjárbænda sem nýta landið án nokkurrar ábyrgðar.

Svandís segir að lagalegt umhverfi þessara mála sé í skoðun og horft sé til þess hve veik náttúruverndaráætlunin sé í raun og veru. Þau séu kannski með 12-14 svæði áætluð til friðunar en tekst ekki að klára nema 4. Vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands um náttúruvernd finnur nefndin sem vann að hvítbókinni engin önnur ráð en að unnið verði að því að mynda net verndarsvæða á landinu. Það ætti að tryggja vernd landslags og gróðurs. Þetta er algerlega vonlaus hugmynd. Engin friðun á pappírum Alþingis hefur minnstu áhrif á yfir milljón sauðfjár sem ráfar stjórnlaust um landið. Það yrði að girða af öll verndarsvæðin og okkur fyrir utan um leið. Vonandi yrði þó hægt að finna hlið á stöku stað en hjálpi þeim sem gleymdu að loka á eftir sér, bitvargurinn væri ekki lengi að rústa svæðinu…

Kílómetrinn af girðingu kostar í dag um 1,5 milljónir. Erum við tilbúin að borga fyrir þúsundir kílómetra af gaddavír sem nú þegar er allt of mikið af, bara til þess að sauðfé bænda geti gengið laust og klárað restina af náttúrulega gróðrinum fyrir utan friðunarsvæðin? Erum við í álögum vanans? Svona rányrkjumiðaldabúskapur eins og er stundaður hér, þekkist ekki lengur hjá siðmenntuðum þjóðum. Við erum öðrum þjóðum til athlægis og furðu að láta óþarfa fjölda af skepnum éta undan okkur landið. Það eina sem þarf að gera til að bjarga þeim töturlega náttúrugróðri sem eftir er, og fjáraustrinum úr ríkissjóði í þessa tímaskekkju, er að setja lög sem banna lausagöngu búfjár.

Bændur beri ábyrgð á sínu búfé og hafi það á afgirtum heimalöndum eða beitarhólfum. Þá þyrfti engar aðrar girðingar og landið færi, alsælt, að græða sárin sín og gaddavírsfárið að víkja. Látið í ykkur heyra. Viljið þið halda áfram að borga fyrir stöðugar landskemmdir? Eða viljið þið krefjast þess af löggjafarvaldinu að það sjái til þess að við búum í landinu án þess að valda því stöðugum skaða? Svo miklum skaða að Landgræðsla ríkisins hefur varla undan að bæta hann.

Er þetta ekki það sem kallað er Bakkabræðravinna?




Skoðun

Sjá meira


×