Skoðun

Talið við okkur!

Sindri Snær Einarsson skrifar
Ungt fólk á að hafa jöfn tækifæri til þess að hafa áhrif á og móta framtíðina og það samfélag sem það býr í. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf að auka þátttöku og hlut ungs fólks í ákvarðanatöku og umræðu um mikilvæg málefni. Þátttaka ungs fólks í uppbyggingu lýðræðis er hornsteinn í starfi Landssambands æskulýðsfélaga. Því fagnar félagið ákvörðun ríkisstjórnarinnar um gerð aðgerðaáætlunar í málefnum ungs fólks. Það er von félagsins að við gerð áætlunarinnar verði hlutur ungs fólks víðtækur, hlustað verði á sjónarmið þess og það haft með í ráðum við mótun stefnunnar. En hvers vegna?

SófakynslóðinTil að glöggva sig betur á því hvað átt er við með ungu fólki þá er það í raun það tímabil kynslóðar sem er að fara frá því að vera börn í að verða fullorðnir og ábyrgir einstaklingar; Við erum kynslóð sem hefur verið nefnd ýmsum nöfnum, t.d. „leikjatölvubörnin", „aldamótakynslóðin", „net-kynslóðin" og hér á landi minnist ég þess að hafa verið kenndur við „sófa-kynslóðina"; kynslóðina sem fær allt upp í hendurnar og lifir vandamálalausu lífi. Því spyr ég; hver eru vandamálin og hvað skilgreinir okkur í raun annað en að vera afbragðs „sófa-dýr"?

Vandi ungs fólksVið erum kynslóðin fædd um og upp úr 1980, við erum kynslóðin sem var sagt að ef við menntuðum okkur vel biði okkar björt framtíð og vel launað starf, við erum kynslóðin sem kemst að því að það kostar meira og meira að stunda nám, við erum kynslóðin sem hefur hæstu brottfallstíðni úr framhaldsskólum í Evrópu, við erum kynslóðin sem upplifir lítinn sem engan leigumarkað, við erum kynslóðin sem sér ekki fram á að kaupa sér eigið húsnæði, við erum kynslóðin sem spannar stærsta hluta fólks á atvinnuleysisskrá, við erum kynslóðin sem er áhugasömust allra Evrópuríkja um að starfa í öðru Evrópuríki til lengri eða skemmri tíma, við erum fyrsta kynslóðin frá tímum fyrir seinni heimsstyrjöld sem býr við erfiðari efnahag og lakari tækifæri en kynslóðin á undan okkur. Við erum 20% þjóðarinnar (15 -30 ára).

Þátttaka ungs fólksEkki er hægt að segja þessi vandamál vera sprottin vegna of mikillar þátttöku hópsins í að skapa sína framtíð eða þátttöku hans í að finna lausnir. Vandamálin eiga ekki eingöngu að vera úrlausnarefni ráðandi kynslóða. Ungt fólk vill líta á sig sem hluta af lausn en ekki vandamál möppudýra ráðuneyta eða sveitarstjórna að vinna úr.

Það á að vera hlutverk stefnumótenda að veita stuðning og hafa frumkvæði að samtali við ungt fólk á eins breiðum vettvangi og hægt er og þar með sýna ungu fólki að því sé treyst fyrir því að koma fram með hugmyndir og lausnir á fyrirliggjandi vandamálum.

Vilhjálmur Vilhjálmsson flutti texta Jóhanns Helgasonar sem á jafn vel við nú og hann gerði á þeim tíma þegar textinn var saminn og sú kynslóð sem ala á land var að verða til.

„Ég held við ættum stundum að hlusta aðeins betur

á hugrenningar þeirra, sem erfa skulu land,

því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur

komið fram með svörin, þar sem sigldum við í strand."

Ég er sannfærður um að ungt fólk í dag sé kynslóðin sem getur komið fram með svörin, þar sem fyrri kynslóð sigldi í strand.




Skoðun

Sjá meira


×