Skoðun

Hvað er lífgas?

Lífgas, sem einnig er þekkt sem hauggas, er gas sem myndast þegar lífrænt efni brotnar niður við súrefnislausar aðstæður. Niðurbrotið er lífrænt ferli og á sér stað víðsvegar í náttúrunni, t.d. í setlögum vatna, vatnsósa jarðvegi (mýrum), við heitar uppsprettur á hafsbotni, í haughúsum o.fl.

Lífgas er gasblanda sem samanstendur að mestu af lífmetani, 45-85%, og koltvíoxíði 14-45%. Hlutfall lífmetansins í lífgasinu er háð efnasamsetningu lífræna efnisins sem brotið er niður, en gróflega má segja að hlutfallið lækki með auknu magni vetniskolefna og aukist með auknu fituinnihaldi. Lífgasið inniheldur einnig aðrar gastegundir sem þarf að fjarlægja með hreinsun ef það á til að mynda að nota það á bílvélar. Eftir hreinsun lífgassins er algengt að hlutfall lífmetansins fari upp í 98% og þá er venjulega talað um lífmetan. Lífmetan er það metan sem selt er á farartæki hér á landi.

Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Verkfræðistofan Verkís vinna nú saman að verkefni sem hefur það að meginmarkmiði að taka saman hagnýta og fræðilega þekkingu á framleiðslu, hreinsun og nýtingu lífgass. Þessi þekking er svo nýtt til þess að setja saman bóklegt og verklegt kennsluefni þar sem áherslan er á smærri útfærslur sem henta íslenskum bændum. Verkefnið hlaut hvata- og þróunarstyrk frá samstarfsnefnd opinberu háskólanna í desember 2011 og styrk frá Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar í febrúar 2012.

Í verkefninu verða útbúin námskeiðsgögn fyrir námskeið í framleiðslu, hreinsun, nýtingu og almennri meðhöndlun lífgass. Auk þess munu gögnin innihalda hagkvæmniútreikninga og hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem hafa áhuga á að hefja lífgasframleiðslu. Námskeiðsgögnin verða öll rafræn og samanstanda af kennslubók, upptökum af fyrirlestrum (aðgengilegum á vef), vikuverkefnum og búnaði fyrir verklegar æfingar og þróunarvinnu. Í fyrstu verða námskeiðsgögnin nýtt fyrir námskeið sem Háskóli Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands stefna á að bjóða sameiginlega upp á veturinn 2012-2013. Þar sem lífgas er í eðli sínu fjölfræðilegt viðfangsefni þá mun námskeiðið og gögnin nýtast nemendum sem eru á mismunandi námsleiðum, t.d. búfræði hjá LbhÍ, Véla- & iðnaðarverkfræði HÍ, Umhverfis- og byggingarverkfræði HÍ, Umhverfis- og auðlindafræði HÍ o.fl. Rafræn kennslugögn og upptökur af fyrirlestrum munu gera nemendum mögulegt að stjórna sínu námi betur, þ.e. þeir geta horft á fyrirlestra þegar þeim hentar, stöðvað spilun og horft/hlustað aftur á atriði sem eru torskilin.

Upptökurnar eru einnig lykilþáttur í því að gera háskólunum tveimur mögulegt að bjóða upp á sameiginleg námskeið. Að öðrum kosti þyrftu nemendur í öðrum skólanum að leggja á sig a.m.k. tveggja klukkutíma ferðalag (fram og til baka) til að sitja fyrirlestur hjá hinum skólanum.

Gert er ráð fyrir að námsgögnin verði síðar aðlöguð að almennri fræðslu – mögulega fyrir önnur skólastig eða opin námskeið. Í sambandi við þetta er skemmtilegt að nefna að Bændasamtök Íslands hafa sýnt verkefninu áhuga og fylgjast með því sem fulltrúi bænda sem vilja auka virði afurða sinna, auka nýtingu og sparnað – samhliða því að verða vistvænni. Upptökur fyrirlestra munu nýtast fyrir fjarnám fyrir bændur með verklegum staðlotum.

Með verkefninu er verið að undirbúa kerfisbundna miðlun þekkingar og byggja upp búnað sem nýtist bæði í verklegar æfingar og rannsóknaverkefni. Lokamarkmiðið er að efla hagnýtar og verkfræðilegar rannsóknir á nýtingu lífmassa sem orkugjafa. Í framhaldinu verða aðrar aðferðir, líkt og gösun lífmassa, skoðaðar.




Skoðun

Sjá meira


×