Erlent

Refsiaðgerðirnar bíta á stjórn Assads

Bashar al-Assad
Bashar al-Assad
Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands, segir refsiaðgerðir alþjóðasamfélagsins gagnvart sýrlenskum stjórnvöldum hafa borið ávöxt.

Er talið að sýrlenska ríkisstjórnin hafi þurft að ganga á um helming varasjóðs síns vegna refsiaðgerðanna síðustu misseri. Varasjóðurinn var talinn nema 17 milljörðum Bandaríkjadala, eða 2.160 milljörðum króna, þegar átökin í landinu brutust út í mars í fyrra.

Ummæli Juppe féllu við upphaf ráðstefnu 57 ríkja í París þar sem rætt er um að herða refsiaðgerðir gegn ríkisstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Þá kom einnig fram í máli Juppe að sýrlensk stjórnvöld hefðu með ýmsum hætti reynt að komast fram hjá refsiaðgerðum og bætti Juppe við að slíkt yrði að stöðva. Refsiaðgerðirnar hafa meðal annars miðað að því að koma í veg fyrir að olía sé flutt út frá Sýrlandi.

Meðal þátttakenda á ráðstefnunni eru Evrópusambandið og Arababandalagið en athygli vakti þó að tvö ríki bandalagsins, Írak og Líbanon, sendu ekki fulltrúa.

Átök hafa staðið yfir milli stjórnarhersins í Sýrlandi og uppreisnarmanna frá síðasta vori eftir að herinn hóf að beita sér gegn mótmælendum sem kröfðust afsagnar Bashar al-Assad, forseta. Er talið að allt að 13.500 manns hafi látist í átökunum, mest óbreyttir borgarar.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×