Skoðun

Helför á Íslandi?

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar
Það virðist vera í tísku að líkja umdeildum málum á Íslandi við skelfilegustu myrkraverk mannkynssögunnar. Sumir þeirra sem andmæltu málarekstrinum gegn Geir H. Haarde kölluðu landsdómsmálið „pólitísk sýndarréttarhöld“. Til dæmis bar Þorsteinn Pálsson landsdómsmálið saman við réttarhöldin yfir Búkharín í Sovétríkjunum, en Búkharín var líflátinn eftir að hafa nauðugur játað á sig fjarstæðukenndar sakir.

Þá líkti sóknarpresturinn Þórhallur Heimisson tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um bann við trúboði í skólum við sovéska skoðanakúgun. Biskup Íslands tók í sama streng og sagði tilburði yfirvalda í Reykjavík „minna óhugnanlega á Sovétið sáluga“. Vart þarf að taka fram að svona málflutningur er ótrúleg vanvirðing við fórnarlömb alræðisstjórnarinnar í Sovétríkjunum, fólk sem var ofsótt og drepið fyrir skoðanir sínar.

Vitleysan virðist engan endi ætla að taka því síðustu daga hefur lágkúran keyrt um þverbak. Það var viðbúið að útgerðarmenn myndu tryllast vegna frumvarpa Steingríms J. Sigfússonar um fiskveiðistjórnunarkerfið. Sú er yfirleitt raunin þegar reynt er að hrófla við kvótakerfinu. En að forkólfar útgerðarinnar skuli nú stíga fram og voga sér að líkja breytingunum á fiskveiðistjórnunarkerfinu við helför nasista, það er hreinlega ógeðslegt.

Á vefsíðu Morgunblaðsins þann 26. mars er vitnað í Berg Kristinsson, formann Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum. Þar lýsir hann áhyggjum sínum yfir því að hækkun veiðigjalds breyti landsbyggðinni í „hálfgert gettó“ og vísar sérstaklega til bókarinnar Öreigarnir í Lódz eftir Steve Sem-Sandberg. Sú bók lýsir því hvernig nasistar lokuðu gyðinga inni í gettói, drápu þá og svívirtu. Þann 29. mars birtist grein á vefsíðunni Eyjafréttir.is þar sem Kastljósi var líkt við áróðursmálaráðuneyti Göbbels vegna umfjöllunar þess um Samherja.

Að lokum er vert að rifja upp viðtal sem tekið var við Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóra LÍÚ, síðastliðið sumar. Þar líkir hann íslenskum útgerðarmönnum við gyðinga í Þýskalandi nasismans. Þessar samlíkingar hljóta að misbjóða öllu heiðvirðu fólki, hvort sem það er hlynnt breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu eður ei. Það er óskiljanlegt að fullorðnir menn skuli tala með þessum hætti. Íslenskum útgerðarmönnum er vorkunn að eiga svona talsmenn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×