Viðskipti innlent

Glitnir átti fimmtung í sjálfum sér árið 2007

Slitastjórn Glitnis vill að skaðabótaskylda PWC vegna brota á lög- og samningsbundum skyldum fyrirtækisins við endurskoðun bankans á árunum 2007 og 2008 verði viðurkennd. Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson sitja í slitastjórninni. fréttablaðið/pjetur
Slitastjórn Glitnis vill að skaðabótaskylda PWC vegna brota á lög- og samningsbundum skyldum fyrirtækisins við endurskoðun bankans á árunum 2007 og 2008 verði viðurkennd. Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson sitja í slitastjórninni. fréttablaðið/pjetur
Fjármálaeftirlitið (FME) gerði ítrekað athugasemdir við skýrslur Glitnis um tengda aðila síðasta árið fyrir bankahrun. Slitastjórn bankans telur að lán til Baugs, FL Group og tengdra aðila hafi numið um 85% af eiginfjárgrunni Glitnis sem er rúmlega þrisvar sinnum meira en lög heimiluðu. Hún telur einnig að Glitnir hafi átt 21,43% af hlutabréfum í sjálfum sér í árslok 2007. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stefnu slitastjórnarinnar á hendur PricewaterhouseCoopers (PWC) á Íslandi og í Bretlandi sem þingfest verður 12. apríl næstkomandi.

Samkvæmt henni kom það í ljós „eftir að skilanefnd og síðar slitastjórn stefnanda tóku til starfa og hófu að skoða stöðu bankans og rekstur hans árin fyrir fall hans […] að stjórnun hans og endurskoðun hafi í veigamiklum atriðum verið stórlega ábótavant“. Slitastjórn Glitnis vill að skaðabótaskylda PWC vegna þess tjóns sem bankinn hlaut af vanrækslu fyrirtækisins við endurskoðun hans á árunum 2007 til 2008 verði viðurkennd.

Í stefnunni, sem er 34 blaðsíður að lengd, eru sérstaklega tilgreind fimm atriði þar sem PWC á að hafa brotið gegn lög- og samningsbundnum skyldum sínum. Í fyrsta lagi hafi PWC ekki upplýst um að stjórnendur Glitnis hefðu veitt útlán til innbyrðis tengdra aðila langt umfram leyfileg áhættuhámörk, í öðru lagi leynt útlánaáhættu bankans til aðila sem töldust tengdir, í þriðja lagi veitt stórfelld útlán til fjárvana eignarhaldsfélaga, í fjórða lagi vanrækt afskriftarskyldu sína og í fimmta lagi vanrækt að upplýsa um þá gríðarlega miklu fjárhagslegu hagsmuni sem bankinn var með í eigin bréfum með þeim afleiðingum að eigið fé hans var verulega of hátt skráð.

Lögmaður Glitnis vitnar mikið til þess í stefnunni að FME hafi gert athugasemdir við PWC á árunum 2007 og 2008 vegna þess að ekki hafi verið gerð „fullnægjandi grein fyrir viðskiptum venslaðra aðila við bankann. Til þess flokks féllu félög sem Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnaði“. Er þar vísað til Baugs, FL Group og aðila þeim tengdum.

Í stefnunni segir einnig að viðvarandi útlánaáhætta umfram lögbundin mörk og nýjar lánveitingar til stærstu eigenda sinna hafi aukið „fjártjónshættu bankans sem síðan varð raunveruleg. Við gjaldþrot Baugs Group í mars 2009 tapaði bankinn u.þ.b. 36 milljörðum króna […] FL Group gerði nauðasamninga við sína lánadrottna til að forða gjaldþroti félagsins og varð bankinn að gefa eftir kröfur sem námu ríflega 50 milljörðum króna […] Verður a.m.k. hluti þess fjártjóns m.a. rakið til bótaskyldrar háttsemi stjórnar bankans og stefnda PWC“.

Þá segir að Glitnir hafi í raun átt 2,8 milljarða hluta í sjálfum sér í árslok 2007, eða 21,43% af öllu hlutafé hans, þrátt fyrir að reikningar bankans hafi sýnt að eigin hlutir bankans hafi einungis verið 151 milljón talsins. Láðst hafi að telja með hlutabréf sem voru seld í lok árs 2007 með annað hvort einvörðungu veði í bréfunum sjálfum eða í framvirkum samningum með eigin bréfum. Því hafi „vantalin eigin bréf og áhætta bundin við eigin bréf [numið] tugum milljarða króna í árslok 2007“.

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×