Viðskipti innlent

38 milljarðar afskrifaðir vegna gengisdóms

Landsbankinn færði eignir sínar niður um 38 milljarða vegna gengislánadóms Hæstaréttar í síðasta mánuði.
Landsbankinn færði eignir sínar niður um 38 milljarða vegna gengislánadóms Hæstaréttar í síðasta mánuði. Fréttablaðið/rósa
Landsbankinn færði eignir sínar niður um 38 milljarða króna vegna endurreiknings á gengislánum eftir dóm Hæstaréttar frá í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem gefinn var út í gær.

Í tilkynningu frá bankanum er tekið fram að í þessum útreikningi, sem sé í samræmi við óskir Fjármálaeftirlitsins, felist engin afstaða til þess hversu víðtækt fordæmisgildi umræddur dómur hefur. Steinþór Pálsson bankastjóri segir í tilkynningunni að nýfallnir dómar hafi ekki verið nægjanlega skýrir og hafi því „valdið óvissu um hvernig fara á með ólögmæt lán og haga endurútreikningi þeirra".

Steinþór segir bankann sýna ýtrustu varúð í mati á áhrifum dómsins. „Ljóst er að fleiri dómar þurfa að falla áður en myndin skýrist."

Þess vegna, að því er kemur fram í tilkynningunni, gæti þessi upphæð komið til með að breytast eftir því sem mál þróast.

Fram kom í ársreikningi Arion banka sem gefinn var út á fimmtudag að þar hafi 13,8 milljarðar verið afskrifaðir, en Íslandsbanki hefur ekki enn skilað ársreikningi.

Meðal annars sem fram kemur í ársreikningnum er að hagnaður bankans á síðasta ári nam 16,9 milljörðum og arðsemi eiginfjárs bankans eftir skatta á síðasta ári var 8,8%.

Heildareignir Landsbankans um síðustu áramót voru 1.135 milljarðar króna og höfðu þá vaxið um 55 milljarða á árinu 2011. Íslenska ríkið á rúmlega 80 prósenta hlut í bankanum og hefur verðmæti hlutarins aukist um 33 milljarða umfram fjármagnskostnað.- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×