Lífið

Stjörnuregn á sólóplötu

Fjórða sólóplata will.i.am. nefnist #willpower. Mick Jagger, Jennifer Lopez og Britney Spears eru á meðal gestasöngvara.

Fjórða sólóplata will.i.am. úr hljómsveitinni The Black Eyed Peas nefnist #willpower og er væntanleg á næstunni. Í fyrsta smáskífulaginu, hinu eldhressa T.H.E. (The Hardest Ever), nýtur hann aðstoðar frá ekki ómerkari manneskjum en Mick Jagger og Jennifer Lopez. „#willpower er stútfull af upplífgandi lögum, sem hvetja fólk áfram sem á því þarf að halda," sagði will.i.am.

Popparinn ólst upp í Los Angeles. Í menntaskóla kynntist hann Allan Lindo, eða apl.de.ap. úr Black Eyed Peas, og ásamt þremur öðrum stofnuðu þeir rappsveitina Atban Klann. Rapparinn Eazy-E sá efnivið í strákunum og gerði við þá útgáfusamning hjá fyrirtæki sínu Ruthless Records árið 1991. Þeir tóku upp plötu en hún leit aldrei dagsins ljós vegna dauða Eazy-E 1995. Atban Klann breytti nafni sínu í The Black Eyed Peas og sú sveit hefur núna selt yfir fimmtíu milljónir platna um heim allan.

Þegar The Black Eyed Peas hafði gefið út tvær plötur vildi will.i.am. koma eigin efni á framfæri og gaf út sína fyrstu sólóplötu, Lost Change, árið 2001. Tveimur árum síðar gaf hann út þá næstu, Must B 21 en frekar lítið fór fyrir þeim báðum.

Eftir útgáfu fjórðu plötu Black Eyed Peas, stjórnaði will.i.am. upptökum á fyrstu sólóskífu Fergie, The Dutchess. Í framhaldinu hóf hann samstarf með Michael Jackson árið 2006. Það stóð yfir til dauða Jacksons en að sögn Will verður ekkert gefið út af efninu sem þeir tóku upp.

Þriðja sólóplata will.i.am., Songs About Girls, kom út 2007. Sjálfur leit hann á hana sem fyrstu sólóplötu sína. Hinar tvær voru að hans mati eingöngu samansafn efnis sem hann hafði verið að dunda sér við í hljóðverinu. Songs About Girls hlaut dræmar móttökur og fór einungis í 38. sætið á Billboard-listanum á meðan sólóplata Fergie fór beint í annað sætið.

Nýjasta sólóplatan átti upphaflega að heita Black Einstein. Nokkur lög sem Will tók upp fyrir teiknimyndina Rio verða þar í nýjum útgáfum, auk þess sem Nicki Minaj, Britney Spears, Cheryl Cole og Busta Rhymes eru á meðal gestasöngvara. Miðað við nýja smáskífulagið með Jagger og Lopez gæti þessi fjórða plata hitt í mark og aflað will.i.am. virðingar sem öflugur sólótónlistarmaður.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.