Viðskipti innlent

Helmingur þarf að fjölga konum í stjórn

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Rúmur helmingur fyrirtækja sem falla undir ný lög um kynjahlutfall í stjórnum, eða 55 prósent, þarf að bæta við konu eða konum í stjórn. Alls falla 285 fyrirtæki undir löggjöfina sem tekur gildi í september á næsta ári. Þetta kom fram á fundi sem Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands, Félag kvenna í atvinnurekstri, Kauphöllin, Samtök verslunar- og þjónustu og efnahags- og viðskiptaráðuneytið stóðu fyrir í gær.

Fram kom að alls vantar 192 konur í stjórnir til að jafna kynjahlutföll þeirra, en á fundinum lagði Félag kvenna í atvinnurekstri fram lista með tengiliðaupplýsingum 190 kvenna sem bjóða fram krafta sína.

Í opnunarræðu sinni á fundinum hafði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sérstaklega orð á þeim tíðindum að Samtök atvinnulífsins hafi tilnefnt 14 stjórnarmenn til setu í stjórnum átta lífeyrissjóða til næstu tveggja ára og að þar af væru 10 konur.

Ísland er með fyrstu löndum sem fylgja fordæmi Norðmanna með lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Taldi ráðherra víst að víðtæk sátt yrði um þessa tilhögun. „Í fyrsta lagi er þetta sjálfsagt og eðlilegur hlutur í samfélaginu eins og við viljum hafa það. Um þetta ætti hvorki að þurfa að rökræða né rífast,“ sagði Steingrímur, og benti á að rannsóknir sýndu að fyrirtækjum með fjölbreyttar stjórnir og jöfn kynjahlutföll farnist betur en öðrum.

Í svipaðan streng tók Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. Hann sagði því auðsvarað hvað hafi orðið verðbréfamarkaði hér að falli: einsleitni og slæmir stjórnarhættir. „Þetta varð til þess að margir féllu á sama tíma. Með meiri fyrirhyggju hefðu fjármálafyrirtækin getað staðið af sér fjármálakreppuna.”

Lið í því að bæta stjórnarhætti og losna úr viðjum kunningjasamfélagsins sagði Páll vera að auka hlutfall kvenna, og þar með fjölbreytnina, í stjórnum fyrirtækja.

Um leið sagði hann það þó enga tryggingu fyrir velgengni og benti á að kynjahlutföll hafi verið þau sömu í stjórnum fyrirtækjanna sem best komu út úr hruninu og þeirra sem urðu verst úti.

„Ég held það væri vel til fundið af fyrirtækjum að láta gera úttekt á sínum stjórnarháttum. En lykilatriðið er samt vakandi fjárfestar. Fjárfestar sem láta sig stjórnarhætti fyrirtækja varða,“ sagði Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×