Viðskipti innlent

Kostnaðurinn miklu minni með evrunni

Í skriflegu svari utanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi kemur fram að myntsláttuhagnaður Seðlabankans gæti aukist um 2,8 milljarða á ári með evruaðild landsins. Nordicphotos/AFP
Í skriflegu svari utanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi kemur fram að myntsláttuhagnaður Seðlabankans gæti aukist um 2,8 milljarða á ári með evruaðild landsins. Nordicphotos/AFP
Kostnaður við gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands nam í fyrra 33 milljörðum króna. Þetta kemur fram í skriflegu svari Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á Alþingi við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokks, um kostnað við Evrópusambandsaðild.

Gangi spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsframvindu hér á landi eftir, fer vaxtakostnaður Seðlabankans vegna gjaldeyrisforðans minnkandi næstu ár og ætti, samkvæmt svari utanríkisráðherra, að enda í um 8 milljörðum króna á ári fyrir árið 2016. Reynslan sýni hins vegar að ríki sem taka upp evruna hafi getað minnkað gjaldeyrisforða sinn verulega og látið nægja að halda úti eigin gjaldeyrisforða sem nemur milli fjórum og fimm prósentum af landsframleiðslu. „Gjaldeyrisforði Íslands sem næmi um 4 til 5 prósentum af landsframleiðslu ársins 2010 væri því um 61 til 77 milljarðar króna. Áætlaður vaxtakostnaður af gjaldeyrisforða af þessari stærð næmi um 1,8 til 2,3 milljörðum króna á ári, miðað við 3 prósenta vexti," segir í svarinu. Árlegur sparnaður í vaxtakostnaði gæti því numið nálægt sex milljörðum króna á ári þegar fram í sækir.

Við upptöku evru þarf hins vegar að leggja fram stofnfé í Seðlabanka Evrópu. Kæmi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, kemur fram í svarinu við fyrirspurn Sigurðar Inga, að einskiptisframlag Íslands til Seðlabanka Evrópu í formi stofnfjár og gjaldeyrisforða yrði 64,5 milljónir evra, eða sem nemur 10,3 milljörðum króna. Sé tekinn inn í myndina vaxtakostnaður við gjaldeyrisforða á fyrsta ári evruupptöku yrði upphæðin því nálægt 12,5 milljörðum króna, eða 20 milljörðum lægri en nemur vaxtakostnaði Seðlabankans við gjaldeyrisforða landsins í fyrra.

Eins kemur fram í svarinu að með evruaðild fengi Seðlabankinn hlutdeild í myntsláttuhagnaði Seðlabanka Evrópu. „Miðað við tölur áranna 2003 til 2011 hefði hlutdeild Seðlabankans í þeim hagnaði orðið að meðaltali um 6,5 milljarðar króna á ári," segir í svarinu og bent á að myntsláttuhagnaður Seðlabankans myndi því aukast um 2,8 milljarða króna á ári.

Í ítarlegu svari utanríkisráðherra við fyrirspurninni er farið yfir margvíslegan kostnað og efnahagslegan ávinning af mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið og við upptöku evru. Um leið er bent á að með aðild falli niður margvíslegur kostnaður vegna aðildar Íslands að EFTA og reksturs EES-samningsins.

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×