Viðskipti innlent

Setja skilyrði fyrir kaupum

Stöðin var opnuð árið 2004 en rekstur hennar hefur ekki gengið sem skyldi. Mikill fjármagnskostnaður vegna byggingar hennar hefur leitt til þess að eigið fé eigendafélagsins var neikvætt um 555 milljónir króna í lok árs 2010. Fréttablaðið/vilhelm
Stöðin var opnuð árið 2004 en rekstur hennar hefur ekki gengið sem skyldi. Mikill fjármagnskostnaður vegna byggingar hennar hefur leitt til þess að eigið fé eigendafélagsins var neikvætt um 555 milljónir króna í lok árs 2010. Fréttablaðið/vilhelm
Bandaríska sorpeyðingarfyrirtækið Triumvirate setur fram ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla til að kauptilboð þess í sorpeyðingarstöðina Kölku í Helguvík gangi eftir.

Á meðal þess sem Triumvirate fer fram á er að öll leyfi til að halda úti þeim rekstri sem fyrirtækið ætlar sér séu til staðar og að fyrir liggi vilji Reykjanesbæjar sem lóðareiganda til að heimila stækkun á verksmiðjunni. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu um kaup Triumvirate á Sorpeyðingarstöð Suðurnesja (SS), sem á og rekur Kölku.

Fréttablaðið, sem greindi frá áformum fyrirtækisins í gær, hefur viljayfirlýsinguna undir höndum. Tilboð Triumvirate er upp á tíu milljónir dala, eða um 1,25 milljarða króna. Upphaflega gilti tilboðið til 29. febrúar, dagsins í dag, en það var framlengt um nokkra daga svo að eigendur Kölku gætu tekið afstöðu til málsins. Stöðin er í eigu Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga.

Í samantekt úr viljayfirlýsingunni, sem KPMG vann, kemur fram að við frágang kaupsamnings muni Triumvirate taka yfir allar viðskiptaskuldir, áfallnar skuldir og skuldbindingar sorpeyðingarstöðvarinnar. Fyrirtækið mun einnig taka yfir, kjósi það svo, langtímaskuldir stöðvarinnar.

Triumvirate getur valið hvort fyrirtækið greiðir fyrir kaupin með peningum eða með yfirtöku á langtímaskuldum, en SS skuldaði tæplega 1,3 milljarða króna í lok árs 2010 samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Skuldir félagsins voru lækkaðar um 163 milljónir í fyrra. Því er ljóst að núverandi eigendur SS, sveitarfélögin á Suðurnesjum, munu fá lítið eða ekkert á milli í viðskiptunum. Þeim býðst þó að halda eftir eignarhlut að lágmarki 10% en að hámarki 33% ef vilji er fyrir því, en kaupverðið myndi lækka í takt við þann eignarhlut. Í yfirlýsingunni er skýrt tekið fram að kaupandinn muni „ekki taka yfir aðrar þær skuldbindingar sem á rekstrinum geta hvílt, s.s. skattskuldbindingar, umhverfisskuldbindingar og ábyrgðarskuldbindingar“.

Á meðal þeirra skilyrða sem Triumvirate setur fyrir kaupunum er að fyrir þurfi að liggja allar upplýsingar „um leyfilegt umfang rekstursins og möguleika til stækkunar, séu þeir fyrir hendi“ auk þess sem fyrir þarf að liggja „vilji Reykjanesbæjar til að heimila stækkun á verksmiðjunni, þ.m.t. stækkun leigulóða ef þörf er á“.

Endanlegt kaupverð og greiðslumáti er háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunnar á fjárhagslegum, rekstrarlegum og lagalegum þáttum SS, úttekt á framleiðslustöðinni sjálfri, að fyrir liggi öll leyfi til að Triumvirate geti haldið úti þeirri starfsemi sem það ætlar sér, að fyrir liggi upplýsingar um förgun ösku og að ásættanlegir samningar séu til staðar við sveitarfélög um áframhaldandi vinnslu á sorpi frá þeim. thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×