Viðskipti innlent

Gagnaveitan verði seld í ár og skili OR milljörðum

viðskiptiÁætlanir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) gera ráð fyrir 2 milljörðum króna vegna sölu eigna í ár, 5,1 milljarði árið 2013 og 1,9 milljörðum árið 2014. Stærsta eignin sem fyrirtækið gerir ráð fyrir að selja er Gagnaveita Reykjavíkur. Eftir á að samþykkja þá sölu, en starfsemi Gagnaveitunnar er skilgreind sem hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Gagnaveitan rekur ljósleiðaranet sem teygir sig frá Bifröst til Vestmannaeyja.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir ákvörðun um sölu Gagnaveitunnar alfarið vera í höndum eigenda og stjórnar OR. „Áætlun gerir ráð fyrir að tekjur af sölunni komi inn í byrjun árs 2013, sem þýðir að selja þyrfti í lok þessa árs."

OR þarf að greiða 30 milljarða króna af lánum á næsta ári og Bjarni segir að gríðarlega stór gjalddagi bíði strax eftir áramót. Sala gagnaveitunnar sé hugsaður til að standa skil á honum.

Fyrirtækið seldi eignir fyrir 1.150 milljónir á árinu 2011, 150 milljónum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bjarni segir að í ár sé einnig ætlunin að selja Perluna, aðalstöðvar fyrirtækisins og fleira sem hann geti ekki tilgreint núna.

Alls var 20 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp í gær. Að auki var skipulagi og verklagi breytt hjá fyrirtækinu og segir Bjarni það marka lok uppstokkunar.

„Nú tekur við venjubundinn rekstur, hann ætlum við að reyna að stunda með sem bestum hætti þannig að við lendum ekki í því aftur að þurfa að moka skafl. Það þýðir ekki að það verði ekki uppsagnir, það er hluti af venjulegum rekstri fyrirtækja að einum og einum verði sagt upp." Ekki verði þó aftur fækkað í jafnstórum hópum.- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×