Viðskipti innlent

Kaupa Iceland langt yfir bókfærðu virði

Malcolm Walker og hópur yfirstjórnenda Iceland Foods hafa samið við Landsbankann og Glitni um kaup á 77% hlut bankanna í Iceland.
Malcolm Walker og hópur yfirstjórnenda Iceland Foods hafa samið við Landsbankann og Glitni um kaup á 77% hlut bankanna í Iceland.
Malcolm Walker hefur samið við Landsbanka og Glitni um kaup á hlut bankanna í Iceland Foods. Kaupverðið miðar við að heildarvirði Iceland sé um 300 milljarðar króna. Virði eignar Landsbankans hækkar um tugi milljarða króna.

Útlit er fyrir að heimtur Landsbanka Íslands og Glitnis vegna sölu á hlut þeirra í verslanakeðjunni Iceland verði tugi milljarða umfram bókfært virði hlutanna.

Bankarnir hafa samið við Malcolm Walker, stofnanda og núverandi forstjóra Iceland Foods, um sölu á 77% hlut bankanna. Kaupverðið er ekki gefið upp í tilkynningu sem bankarnir gáfu út, en það mun nema um 1,2 milljörðum sterlingspunda, eða um 234 milljörðum króna. Miðað við það er heildarvirði Iceland Foods keðjunnar um 1,55 milljarðar punda, um 300 milljarðar króna. Walker gerði tilboð að upphæð einum milljarði punda í hlutinn árið 2010, en því var hafnað.

Heimildir Fréttablaðsins herma að bókfært virði hluta Landsbankans og Glitnis í Iceland sé um 140 milljarðar og munurinn því tæplega 100 milljarðar króna.

Walker og félagar hans í stjórnendahópi Iceland eiga þegar 23% í fyrirtækinu. Walker hafði forkaupsrétt á hlutum bankanna og hefði því getað beðið eftir tilboðum annarra áhugasamra fjárfesta og lagt fram samsvarandi tilboð innan 42 daga.

Tilboðsfrestur í hlutina rann út um síðustu mánaðamót. Nokkur önnur tilboð bárust, en í þeim hópi voru aðeins tvö sem komu alvarlega til greina samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, en það voru tilboð frá fjárfestingasjóðunum Bain Capital og BC Partners.

Aðrar verslanakeðjur höfðu sýnt áhuga á að kaupa hlutinn, til dæmis Morrisons og Asda. Þau gerðu þó ekki tilboð að þessu sinni.

Í tilkynningu til fjölmiðla segist Walker vonast til þess að skrifa undir kaupsamning innan þriggja vikna. Samkvæmt breskum fjölmiðlum hafa Walker og félagar hans tryggt sér fjármögnun frá nokkrum stórum bönkum. Auk þess eru Glitnir og Landsbanki sagðir lána Walker 250 milljónir punda, sem samsvarar tæpum 49 milljörðum króna. Fréttablaðið fékk það þó ekki staðfest.

Uppgangur hefur verið í rekstri Iceland síðustu árin. Fyrirtækið hefur skilað hagnaði síðustu sex ár en í síðasta ársuppgjöri var hagnaðurinn 155 milljónir punda, um 30 milljarðar króna.

thorgils@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×