Viðskipti innlent

Bankarnir vita ekki hvernig bregðast á við

Samkvæmt nýföllnum dómi Hæstaréttar ættu í það minnsta að lækka skuldir af erlendum lánum sem staðið hefur verið í skilum með afborgarnir af.
Samkvæmt nýföllnum dómi Hæstaréttar ættu í það minnsta að lækka skuldir af erlendum lánum sem staðið hefur verið í skilum með afborgarnir af.
Óvíst er hversu víðtæk áhrif nýr gengislánadómur Hæstaréttar hefur. Fjármálafyrirtæki og samtök þeirra leita til lögfræðinga um hvernig beri að túlka dóminn. Eins er á reiki hvernig haga beri endurútreikningi. Mögulega kallar staðan á leiðbeinandi álit Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, eða jafnvel á ný lög frá Alþingi.

Fulltrúar fjármálafyrirtækja funduðu í gærmorgun með Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) um nýfallinn gengislánadóm Hæstaréttar. Óvissa er uppi um með hvaða hætti fyrirtækin bregðast við og hvernig eigi að haga endurútreikningi lána í þeim tilvikum þar sem það á við.

Í tilkynningu sem Landsbankinn sendi frá sér í gær segir að ljóst sé að dómur Hæstaréttar breyti þeim endurreikningsaðferðum sem kveðið er á um í lögum og bankinn hefur byggt á. „Ljóst er að nú fer í hönd vinna við að meta fordæmisgildi dómsins. Dómurinn hefur væntanlega í för með sér að endurreikna þarf á ný fjölda lána," segir í tilkynningu bankans.

Undir eru sögð íbúðalán einstaklinga, lán til fyrirtækja og lán sem Landsbankinn tók yfir við samruna hans við SpKef, SP–Fjármögnun og Avant. „Ekki er þó hægt að fullyrða að niðurstaðan hafi áhrif á öll lán sem hafa verið endurreiknuð eða á eftir að endurreikna."

Innan bankanna er dómur Hæstaréttar ekki sagður jafn afdráttarlaus og margur hafi viljað vera láta þegar hann féll á miðvikudag. Um leið er mikill þrýstingur frá fólki og hagsmunasamtökum um að fá niðurstöðu og því ljóst að tæpast verður legið yfir dómnum í mjög marga daga án niðurstöðu.

Þá er tilfinningin sú innan bankanna að þeir geti ekki sjálfir tekið af skarið varðandi túlkun á dómnum, enda sé flækjustigið hátt og lítill stuðningur í fyrri ákvörðunum stjórnvalda. Þegar gengislán voru fyrst dæmd ólögmæt gáfu Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn út leiðbeinandi tilmæli um hvernig reikna ætti vexti, sem Hæstiréttur sagði síðan að væri ekki í lagi. Þá komu lög frá Alþingi um endurútreikning lána sem Hæstiréttur hefur nú sagt ekki í lagi, að minnsta kosti að hluta til.

Auk þess að kalla til sérfræðinga bíða því bankarnir tilmæla frá stjórnvöldum, hvort sem þar verður um að ræða ný tilmæli um aðgerðir frá FME og Seðlabanka, eða mögulega ný lagasetning frá Alþingi.

Þá er líka horft til þess að Hæstiréttur hafi alls ekki verið samstíga í dómi sínum, þrír af sjö dómurum vildu aðra niðurstöðu nú.

Eins ríkir óvissa um hversu víðtæk túlkun eigi að vera á dómnum, hvort hann eigi aðeins að ná til fólks sem staðið hefur í skilum með lán sín, líkt á við um fólkið sem höfðaði málið, en Hæstiréttur segir í dómi sínum að ekki megi breyta afturvirkt vöxtum sem þegar hafi verið greiddir og fólk fengið kvittun um. Ef svo er fá þeir væntanlega ekki sjálfkrafa leiðréttingu sem eru með lán í vanskilum eða höfðu lengt í lánum eða fengið önnur úrræði sem breyttu lánaskilmálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×