Lífið

Spila til heiðurs David Bowie á Norðurlöndunum

Tónlistarmaðurinn Karl Örvarsson ætlar í útrás með David Bowie-heiðurstónleika sína.
Tónlistarmaðurinn Karl Örvarsson ætlar í útrás með David Bowie-heiðurstónleika sína. fréttablaðið/vilhelm
„Þetta er á teikniborðinu. Okkur langar til að gera þetta með hækkandi sól,“ segir tónlistarmaðurinn Karl Örvarsson.

Hann og hljómsveit hans, Kóngulærnar frá Mars, hyggja á útrás með tónleikana sem þeir hafa haldið hér á landi til heiðurs uppáhaldstónlistarmanni hans, David Bowie.

„Núna langar okkur að fara til útlanda með þetta,“ segir Karl og nefnir Ósló, Stavangur og Kaupmannahöfn sem hugsanlega viðkomustaði seinna á árinu. „Við erum að líta í kringum okkur eftir góðum söngvurum þar sem eru á einhverjum stalli og við viljum bjóða þeim að taka þátt í þessu með okkur.“ Hann bætir við að Eiríkur Hauksson hafi þegar tekið vel í fyrirspurn hans um að syngja með Köngulónum í Noregi.

„Ég held að David Bowie sé markaðsvara og að „tribute-ið“ hans sé markaðsvara líka. Við erum kokhraustir með þetta og þetta er líka búið að fá það góðar undirtektir hérna heima.“

Karl hefur tröllatrú á hljómsveitinni sinni sem er skipuð reynsluboltum úr poppbransanum. „Ég held að ef Bowie myndi heyra í þessu bandi yrði hann snöggur að stela því undan mér og ég stæði eftir hljómsveitarlaus.“

Karl Örvars og Kóngulærnar frá Mars spila næst á Græna hattinum á Akureyri í kvöld. Þar munu þeir spila lög sem spanna feril Bowie allt frá Ziggy Stardust til Absolute Beginners. Tónleikarnir verða teknir upp á þrjár myndavélar og búið verður til kynningarmyndband sem verður kynnt erlendis.

Kemstu eitthvað með tærnar þar sem Bowie hefur hælana? „Ég ber kannski ekki alveg latex-búninginn hans gamla. Eigum við ekki að segja að sterkasta tengingin er sú að við erum fæddir sama dag. Ég er alla vega ekki búinn að fá mér bláa linsu í annað augað en ég ætti kannski að drífa í því,“ segir Karl léttur og heldur áfram: „En þetta hefur gengið ákaflega vel og mér finnst liggja mjög vel fyrir mér að syngja Bowie.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.