Innlent

Sautján settir í nálgunarbann

Lögreglustöð Lögreglan getur tekið ákvörðun um nálgunarbann og ber það síðan undir dómara.
Lögreglustöð Lögreglan getur tekið ákvörðun um nálgunarbann og ber það síðan undir dómara. fréttablaðið/anton
Tíu voru úrskurðaðir í nálgunarbann í fyrra og sjö árið á undan. Árin á undan var úrræðið nánast ekkert notað, en er að sanna gildi sitt að mati aðstoðarlögreglustjóra. Sambúðarslit eru oft bakgrunnur málanna.

Sautján nálgunarbönn hafa verið sett á síðastliðin tvö ár. Notkun úrræðisins hefur aukist mikið en tveir höfðu í heildina verið úrskurðaðir í nálgunarbann fjögur ár á undan.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá ríkislögreglustjóra voru nálgunarbönn tíu talsins í fyrra. Þau voru sjö árið 2010 og eitt nálgunarbann var í gildi árin 2008 og 2006. Árin 2007 og 2009 voru engin nálgunarbönn úrskurðuð.

„Þetta eru í mjög mörgum tilvikum erfið samskipti fólks eftir aðskilnað – skilnað eða sambúðarslit,“ segir Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann segist telja að nálgunarbann sem úrræði hafi smátt og smátt verið að sanna sig og sé nú talin lausn í málum. Það skýri líklega þá miklu fjölgun nálgunarbanna sem orðið hefur.

„Nálgunarbannið er úrræði sem hægt er að grípa til ef einstaklingur eða einstaklingar verða fyrir áreiti og jafnvel brotum,“ segir Jón. Ekki þarf að vera um brot að ræða. „Þetta er líka mögulegt sem úrræði ef einhver ónáðar viðkomandi með því að koma að heimili eða vinnustað og skirrist ekki við þó að hann fái skilaboð um að ekki sé óskað eftir nærveru hans.“

Ný lög um nálgunarbönn og brottvísun af heimili tóku gildi um mitt síðasta ár. Jón segir nýmæli hvað varðar nálgunarbönn að nú geti lögregla tekið ákvörðun um að beita úrræðinu og ber það síðan undir dómara. Áður þurfti að bíða eftir að dómari fjallaði um málið svo bann tæki gildi. „Nú kemur úrræðið til framkvæmdar strax. Þetta er skilvirkara úrræði.“ - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×