Viðskipti innlent

Telur að hagur heimilanna muni vænkast

Einkaneyslu er spáð hægvaxandi fram til ársins 2014. fréttablaðið/vilhelm
Einkaneyslu er spáð hægvaxandi fram til ársins 2014. fréttablaðið/vilhelm
Hagkerfið á Íslandi er að taka við sér. Hagvöxtur er að aukast, atvinnuleysið fer hægt minnkandi en verðbólgan helst þó enn fremur há á þessu ári, en fer eftir það lækkandi. Staða heimilanna fer hægt batnandi og eru þau að byrja að rétta úr kútnum eftir þrengingar síðustu ára.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri endurskoðaðri hagspá hagdeildar ASÍ sem birt var í gær. Spáin er fyrir árin 2012 til 2014. Í hagspánni segir að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi vaxið um 6,5% í fyrra. Búast má við að það hægi á vexti ráðstöfunartekna á þessu ári. Hagdeildin spáir því að einkaneysla vaxi um 2,2% á þessu ári, 1,1% á næsta ári og um 2,1% árið 2014.

Staðan á vinnumarkaði verður áfram erfið en batnar hægt í takt við jákvæðari horfur í efnahagsmálum. Í lok spátímans 2014 er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði 4,9%.

Viðsnúningur varð í íslensku efnahagslífi í fyrra, segir í plagginu en áætlanir gera ráð fyrir að hagvöxtur árið 2011 hafi verið 3,1%. Áfram er gert ráð fyrir hægfara bata með vexti landsframleiðslu á bilinu 1,4% til 2% á ári næstu þrjú ár.

Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar styrkist um 5% á spátímanum en verði áfram veikt og gengisvísitalan verði komin í 206 stig árið 2014. Verðbólga verður mikil í ár eða 5,1% en hún minnkar smám saman þegar líður á spátímann og verður 2% í árslok 2014. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×