Innlent

Mótmælir því að hafa fjárfest án rannsóknar

Helgi Magnússon
Helgi Magnússon
Helgi Magnússon,formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir tjón lífeyrissjóðanna við hrunið auðvitað tilfinnanlegt. Mikilvægt sé hins vegar að miða við tímann frá hruni. Þá sé heildarrýrnunin um 380 milljarðar króna en ekki 480 milljarðar.

„Lífeyrisjóðirnir fengu högg sem nam einum fimmta af eignum en þeir stóðu samt af sér hrunið og eru að eflast á nýjan leik. Til samanburðar er nauðsynlegt að hafa í huga að aðrar helstu fjármálastofnanir landsins hrundu til grunna í hruninu,“ segir Helgi.

Þá segir Helgi að setja þurfi málið í samhengi við það sem gerðist erlendis þar sem eignir sjóða rýrnuðu einnig þótt þar hafi ekki orðið viðlíka hrun. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt þótt íslensku sjóðirnir hafi orðið fyrir áfalli. Margháttaðar breytingar hafi verið gerðar eftir hrun og skerpt á reglum.“

Að sögn Helga er í skýrslu úttektarnefndarinnar ýmsar ábendingar sem lífeyrissjóðirnir hljóti að þurfa að taka mið af. Spurður um gagnrýni í úttektinni segir hann að hafa þurfi í huga að lífeyrissjóðirnir hafi staðið hrunið af sér betur en flestir aðrir.

„Auðvitað þurfum við að hafa í huga ábendingar og athugasemdir. Sumu af því er maður sammála en annað er með þeim hætti að maður mótmælir,“ segir Helgi og boðar rökstuddar athugasemdir á næstunni.

„Við mótmælum því að við höfum ekki kynnt okkur málin nógu vel,“ segir Helgi sem kveður stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fylgjast mjög náið með fjárfestingum. „Við erum ekki sammála þessari gagnrýni hvað okkar sjóð varðar.“

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir margar gagnlegar ábendingar í skýrslu úttektarnefndarinnar.

„Það sem við höfum verið að gera frá hruni er að efla eignastýringuna og áhættustýringuna og síðan verkferla og formlegheit öll sem réttilega var bent á af nefndinni að þurfti að bæta. Ég tek undir að það vantaði upp á formlegheitin; að skrá niður og slíkt,“ segir Árni. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×