Skoðun

Ef heiðríkt er og himinn klár

Þórir Jökull Þorsteinsson skrifar
Ég, Þórir Jökull Þorsteinsson, hef ákveðið að gefa kost á mér til embættis biskups Íslands. Þessi ákvörðun mín hvílir á því að ég sé réttilega til þessa kallaður eins og þau önnur sem hug hafa á að leiða hið kirkjulega samfélag flestra Íslendinga. Þá hafa allmörg úr hópi vina og fyrrverandi sóknarbarna ýmist nefnt þetta eða hvatt mig til þessa. Með því að gefa kost á mér lýsi ég yfir sjálfstæði mínu og frelsi samvisku minnar í anda kristins manns. Biskupsembætti þetta tilheyrir á sinn hátt öllum skírðum Íslendingum sem láta sig þjóðkirkjuna varða sem trúarsamfélag sitt. Verkefnið er að varðveita eininguna innan þess samfélags kristinna manna sem er hin evangelísk-lútherska þjóðkirkja Íslands.

Framundan eru erfiðleikar sem þjóðkirkjan þarf að mæta og getur með Guðs hjálp sigrast á með uppbyggilegum hætti og endurnýjun. Fátt hefur á síðari árum gert þjóðkirkjusamfélaginu meira gagn sem kirkju en samfelld árás vantrúaðra á hana. Því miður hafa viðbrögð okkar oftsinnis litast af því viðhorfi að þessar atlögur væru lítið þakkarefni. Í víðri veröld er þó ekkert samfélag sem ríkulegar fékk en kirkjan þá brýningu í morgungjöf að þakka mótlæti og andstreymi af manna völdum, hvort sem þeir væru innan kirkju eða utan. Allt er það tilefni til að hún megi læra af því og finna á ný að hún er samfélag lífs og frelsunar. Andstreymið sem þjóðkirkjan hefur mætt er fyrst og síðast eindregin gagnrýni af ýmsum toga, stundum fjandsamleg og óverðskulduð en stundum alls ekki.

Staða þjóðkirkjunnar sem stofnunar í íslenzka ríkinu er gjarna höfð að skotspæni sem engan skyldi undra því sá tími er liðinn að henni dugi sem trúfélagi að vísa til félagslegra, pólitískra og sögulegra viðmiða einna sem ekki megi víkja frá og láta þar við sitja réttlætinguna. Okkur ber að hafa í huga að forsendur sérstöðu evangelísk-lútherskrar kirkju í ríkinu eru flestum gleymdar eða að engu hafðar. Við blasir að engum er greiði gerður með eilífum núningi út af skipan og stöðu þjóðkirkjunnar sem oftar en ekki sækir inntak sitt í þann útbreidda misskilning að hún sé eindregin ríkisstofnun, sem er fjarri sanni þó einhverjar leifar þeirrar skipanar sé enn að finna.

Ný stjórnarskrá mun að breyttu breytanda ráða þessu til lykta á þann hátt að landsmenn geti við unað.

Öllu hugsandi fólki er ljóst að engin kirkja á þess kost að öllum líki við hana, hún getur í þeim skilningi ekki verið öllum allt, hún hefur heldur ekki tilgang í sjálfri sér eins og stundum virðist gengið út frá. Tilgangur hennar er fólginn í því að boða fagnaðarerindið meðal Íslendinga. Okkur hættir að mínu viti til að gera of mikið úr þýðingu þjóðkirkjunnar hvað varðar pólitískar og samfélagslegar áherzlur á hverjum tíma. Fólk saknar kirkjunnar en ekki réttarhyggju manna eða hinna og þessara skoðana þeirra. Þær eru og verða legío en Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir! Við erum enda mötuð stöðugt á málefnum yfirstandandi tíma til góðs og ills en nærvera kirkjunnar og starf réttlætist ekki af slíkum vindum sem koma og fara. Sjálfum þykir mér líklegt að það viðhorf sé orðið útbreitt meðal landsmanna að þá varði, hvað eigið framferði varðar, litlu hvað þjóðkirkjan segir eða ekki segir.

Kirkjunnar er því að boða mönnum og birta lífið í Kristi og þann kærleika sem útilokað er að fallið geti úr gildi og sem ber í sér uppbyggilegan aga og umhyggju í senn. Það er ekki allt líf sem lifað er, segir orðtakið og inntak þeirra orða má vel heimfæra til þess sem kirkjunni kemur og henni er af Guði ætlað að sá til með boðun sinni en fyrir hana eignast fólk lífsfyllingu og þá einlægu gleði sem upplýsingu Jesú Krists fylgir. Því miður er vonin um þetta hnoss stundum umgengin sem væri hún einber heimska, órar eða uppgerð og því er annað góss látið koma hennar í stað. Verum ekki þrælar manna, skrifaði postulinn.

Án Krists getur enginn maður þegið neitt af því sem erindi hans gengur út á en sá sem það gerir mun í anda sínum finna sig heima. Sem biskup bæri ég ofanritað fyrir brjósti. Þá hef ég látið í ljós það viðhorf mitt að draga þurfi úr kostnaðarsömum umsvifum embættis biskups Íslands og efla á móti biskupsembættin á stólunum fornu í Skálholti og á Hólum. Þar ættu, til uppörvunar söfnuðunum, að sitja fullgildir biskupar hvor í sínu stifti. Ég gæti rakið hér inntak starfa minna og reynslu í þjónustu þjóðkirkjunnar en kýs að svo komnu að leggja hér við hjarta mitt. Þeim öðrum sem nú bera sig eftir embætti biskups Íslands óska ég blessunar og alls velfarnaðar, minnugur þess að Guði er ekkert um megn og fel ég honum þetta mál allt. Í tilefni dagsins er hér gamall húsgangur.

Ef heiðríkt er og himinn klár,

á helga Pálus messu,

mun þá verða mjög gott ár,

maður upp frá þessu.

Á Pálsmessu, 25. janúar, 2012,

Þórir Jökull Þorsteinsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Taktu tvær

Arnar I. Jónsson,Heiðrún Björk Gísladóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.